Viðskipti innlent

Tekjur Símans gætu lækkað um 600 milljónir

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Orri Hauksson sagðist búast við að eftirlitsstofnanir samþykktu samruna Vodafone og 365, en þó með stífum skilyrðum.
Orri Hauksson sagðist búast við að eftirlitsstofnanir samþykktu samruna Vodafone og 365, en þó með stífum skilyrðum.
Heildsölutekjur fjarskiptafélagsins Símans gætu dregist saman um allt að 600 milljónir króna á ársgrundvelli í kjölfar fyrirhugaðs samruna Vodafone og 365, helstu keppinauta félagsins. Þetta kom fram í máli Orra Haukssonar, forstjóra Símans, á kynningarfundi með fjárfestum í síðustu viku.

Hann sagðist búast við að eftirlitsstofnanir samþykktu samruna Vodafone og 365, en þó með stífum skilyrðum. Áhrifa samrunans myndi gæta víða í starfsemi Símans, en félagið myndi meðal annars missa heildsölutekjur til hins sameinaða félags, þá að því tilskildu að allir viðskiptavinir 365 færðu sig yfir til Vodafone.

Gæti upphæðin orðið allt að 600 milljónir króna á ársgrundvelli. Til samanburðar námu tekjur Símans tæpum 29,6 milljörðum króna í fyrra.



Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.

Leiðrétting:

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var ranglega sagt til um heildartekjur Símans í fyrra. Rétt er að þær námu alls 29.572 milljónum króna. Beðist er velvirðingar á þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×