Viðskipti innlent

Sjóvá keypti 500 milljóna króna hlut í Ölgerðinni

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár. Vísir/Daníel
Tryggingafélagið Sjóvá tók þátt í kaupum fjárfesta á 69 prósenta hlut í Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni fyrr á árinu. Keypti tryggingafélagið 500 milljóna króna hlut í félaginu, en kaupin gengu í gegn í lok aprílmánaðar. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu vegna uppgjörs félagsins á öðrum ársfjórðungi.

Framtakssjóðirnir Akur fjárfestingar, í stýringu Íslandssjóða, og Horn III, í stýringu Landsbréfa, sem eru að mestu í eigu lífeyrissjóða, keyptu 69 prósenta hlutinn ásamt hópi einkafjárfesta og Sjóvá. Kaupverðið nam um fimm milljörðum króna þegar ekki er tekið tillit til skulda og handbærs fjár Ölgerðarinnar.

Októ Einarsson, stjórnarformaður Ölgerðarinnar, og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri félagsins, eiga saman 31 prósents hlut í félaginu í gegnum OA eignarhaldsfélag ehf. Októ var kjörinn stjórnarformaður á aðalfundi Ölgerðarinnar í lok apríl.

Hermann Már Þórisson, framkvæmdastjóri Horns III, fór þá inn í stjórn félagsins ásamt Jóhannesi Haukssyni, framkvæmdastjóra hjá Íslandssjóðum sem reka Akur. Það gerðu einnig þær Rannveig Eir Einarsdóttir, forstöðumaður flugþjónustudeildar Icelandair, og Sylvía Kristín Ólafsdóttir, starfsmaður Landsvirkjunar.

Eins og Markaðurinn greindi frá um miðjan mars biðu þáverandi og núverandi eigendur Ölgerðarinnar eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins fyrir sölunni í rúma fjóra mánuði að óþörfu. Salan var ekki tilkynningarskyld og úrskurðaði stofnunin endanlega um það í byrjun mars.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×