Viðskipti innlent

VÍS bætir upplýsingagjöf til markaðarins

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Helgi Bjarnason er forstjóri VÍS en félagið er tryggingafyrirtækið til að birta reglulegar upplýsingar um samsetta hlutfallið.
Helgi Bjarnason er forstjóri VÍS en félagið er tryggingafyrirtækið til að birta reglulegar upplýsingar um samsetta hlutfallið.
Við viljum efla alla okkar upplýsingagjöf til markaðarins og þetta er eitt skref í því,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri tryggingafélagsins VÍS, í tilefni þess að félagið hefur ákveðið að birta reglulega upplýsingar um samsett hlutfall og greiddar tjónabætur.

Upplýsingarnar verða birtar mánaðarlega. Um miðjan næsta september verða til dæmis birtar upplýsingar um samsett hlutfall og greiddar tjónabætur hjá félaginu í ágústmánuði.

„Við teljum einfaldlega að það sé til bóta að markaðurinn sé betur upplýstur um gang mála og sjáum ekki af hverju við ættum að halda þessum upplýsingum leyndum,“ útskýrir Helgi. Hann bætir við að þetta geri stjórnendum kleift að byrja fyrr að vinna með þessar upplýsingar ásamt starfsfólki, því hingað til hafa þær verið skilgreindar sem innherjaupplýsingar.

VÍS er fyrsta tryggingafélagið hér á landi sem hefur tekið ákvörðun um að birta slíkar upplýsingar. Til samanburðar má nefnda að Ice­landair Group birtir mánaðarlega flutningstölur félagsins.

Ætla má að upplýsingagjöf af þessu tagi geri vangaveltur um afkomuviðvaranir, eins og VÍS tilkynnti um í júli síðastliðnum, óþarfar en sú viðvörun var gefin út eftir nokkra óvenju tjónalétta mánuði í röð hjá félaginu.

„Já, það er einn þáttur í þessari ákvörðun hjá okkur. Við viljum bara að markaðurinn hafi þessar upplýsingar og geti fylgst sjálfur með þróuninni. En um leið verðum við að treyst því að markaðurinn skilji að rekstur tryggingafélaga er í eðli sínu alltaf sveiflukenndur á milli mánaða,“ segir Helgi.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×