Viðskipti innlent

Afkoma Reykjavíkurborgar jákvæð um 18 milljarða

Sæunn Gísladóttir skrifar
Við Reykjavíkurtjörn.
Við Reykjavíkurtjörn. Vísir/GVA
Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var jákvæð um 18,6 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 7,8 milljarða.

Fram kemur í tilkynningu að helstu ástæður fyrir betri afkomu megi rekja til hærri tekjufærðra matsbreytinga fjárfestingaeigna Félagsbústaða, lægri fjármagnsgjalda samstæðunnar vegna gangvirðisbreytinga innbyggðra afleiða í raforkusamningum hjá Orkuveitu og lægri rekstrarkostnaðar en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 14,2 milljarða króna sem er 4,5 milljörðum króna betri niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 3,6 milljarða króna. Betri rekstrarniðurstaða skýrist einkum af hærri skatttekjum og framlögum Jöfnunarsjóðs, segir í tilkynningu, sem og hærri tekjum af sölu byggingarréttar og söluhagnaði fasteigna.

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok 551,1 milljarði króna, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru rúmir 290 milljarðar króna og eigið fé var 260 milljarðar króna en þar af var hlutdeild meðeigenda 13.955 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar fer hækkandi og er nú 47,3 prósent en var 45,8 prósent um síðustu áramót.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×