Viðskipti innlent

Skotsilfur Markaðarins: Söluferli Lyfju aftur á byrjunarreit

Ritstjórn Markaðarins skrifar
Eftir að Samkeppniseftirlitið ógilti kaup smásölurisans Haga á Lyfju er sala ríkisfyrirtækisins aftur komin á byrjunarreit. Lindarhvoll, sem heldur utan um stöðugleikaeignir sem voru framseldar til ríkisins, mun að öllum líkindum boða aftur til opins söluferlis í stað þess að leita til þess fjárfestis sem var með næsthæsta tilboðið í fyrra söluferlinu. Vitað er að það tilboð var umtalsvert lægra en það 6,7 milljarða króna tilboð sem forsvarsmenn Haga, en Finnur Árnason er forstjóri félagsins, gerðu í Lyfju. Efast má um að nokkur annar fjárfestir sé reiðubúinn til þess að greiða svo hátt verð.

Kom á óvart

Það brá mörgum í brún þegar Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, var skipuð í nýja þriggja manna stjórn Bankasýslu ríkisins. Ekki þó vegna þess að Margrét sé ekki hæfur stjórnarmaður heldur vegna þess að hún hefur verið virkur meðlimur í Samfylkingunni og á framboðslistum flokksins. Bjuggust margir við að ríkisstjórnarflokkarnir myndu skipta stjórnarsætunum á milli sín. Almar Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, tók þá einnig sæti en hann hefur lengi haft tengsl við Sjálfstæðisflokkinn, er góður vinur formannsins Bjarna Benediktssonar, eins og Lárus H. Blöndal, formaður stjórnarinnar.



Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, var skipuð í nýja þriggja manna stjórn Bankasýslu ríkisins á dögunum.
Til Íslandsbanka

Íslandsbanki hefur ráðið til sín Vilhjálm Vilhjálmsson, sem er hagfræðingur að mennt, en hann mun starfa í eigin viðskiptum hjá bankanum. Vilhjálmur starfaði áður um árabil sem sjóðsstjóri skuldabréfa hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni, dótturfélagi Arion banka. Yfirmaður eigin viðskipta Íslandsbanka er Ármann Einarsson en hann tók við þeirri stöðu fyrr í sumar eftir að Lárus Bollason færði sig yfir í verðbréfamiðlun bankans.

Skotsilfrið er óvægin innsýn inn í bakherbergi viðskipta og atvinnulífs á landinu. Pistillinn birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu á miðvikudögum.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×