Innlent

Annað dauðsfall á geðdeild Landspítalans

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Ungur karlmaður svipti sig lífi á geðdeild Landspítalans í gær. Þetta er í annað skipti á tíu dögum sem maður fellur fyrir eigin hendi á geðdeild spítalans.

Maðurinn sem lést var á þrítugsaldri. Hann var lagður inn á bráðageðdeild síðastliðinn mánudag en þá var hann talinn vera í sjálfsvígshættu. Degi síðar, eða á þriðjudeginum, var hann færður á almenna deild. Hann fannst svo látinn í herbergi sínu á spítalanum í gær.

Landspítalinn segist ekki vilja tjá sig um málið en aðeins tíu dagar eru frá því að annar karlmaður svipti sig lífi á geðdeildinni. Þá sendi spítalinn frá sér yfirlýsingu þess efnis að ítarleg skoðun muni fara fram og að málið sé litið mjög alvarlegum augum.

Málið var talsvert til umfjöllunar en maðurinn hafði verið í sjálfsvígshugleiðingum og svipti sig lífi um sólarhring eftir innlögn á geðdeild.

Auður Axelsdóttir, forstöðumaður Geðheilsu og eftirfylgdar, og stjórnarmaður í Hugarafli, segir málið þyngra en tárum taki og kallar eftir frekari forvarnarstarfi, en Hugarafl og undirsamtökin Pieta Ísland vinna nú að auknum forvörnum og vitundarvakningu.

„Við erum fullkomlega vanmáttur sem samfélag, bæði samfélagið okkar og allir sem standa að þessum unga herramanni, þannig að það er mikill sársauki og mikill harmleikur í hvert sinn sem svona gerist. Við viljum gjarnan efla forvarnir á Íslandi. Það er alveg klárt mál að við þurfum að horfast í augu við það að sennilega eru allir að reyna að gera sitt besta, en við erum ekki að gera nógu vel. Það er staðreynd þegar svona gerist,“ segir Auður.

Hún segir að auðvelda þurfi fólki að leita sér aðstoðar, en vill sömuleiðis að því sé mætt með meiri kærleik og umhyggju. Utanumhald um fjölskyldur sé ekki síður mikilvægt.
„Við Íslandi erum því miður, eins og á síðasta ári, að missa um fjörutíu manns vegna sjálfsvíga. Það er auðvitað alltof alltof margir. Og það er erfitt að leita sér þjónustu í sjálfsvígshættu. Við höfum jú spítalann sem reynir að mæta þessu en okkur vantar og skortir forvarnarvinnu.“


Tengdar fréttir

Landspítali mun rannsaka sjálfsvíg

Af hálfu Landspítalans mun fara fram ítarleg skoðun á atvikum málsins þegar ungur maður svipti sig lífi á geðdeild Landspítala aðfaranótt 11. ágúst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.