Viðskipti innlent

Vonast til að viðskiptavinir Air Berlin fái svör sem fyrst

Atli Ísleifsson skrifar
Air Berlin hefur flogið reglulega milli Íslands og borga í Þýskalandi í allt sumar.
Air Berlin hefur flogið reglulega milli Íslands og borga í Þýskalandi í allt sumar. Vísir/EPA
Isavia vonast til að viðskiptavinir þýska flugfélagsins Air Berlin muni fá svör um framhaldið sem allra fyrst í kjölfar frétta morgunsins um að Air Berlin hafi lýst yfir gjaldþroti.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir fyrirtækið hafa verið í sambandi við þjónustuaðila Air Berlin vegna málsins. „Við leggjum áherslu á að fá upplýsingar um framtíðina, hvernig þetta verður. Sérstaklega að farþegar sem eiga bókað flug með þeim viti sem fyrst með framhaldið,“ segir Guðni í samtali við Vísi.

Air Berlin hefur í sumar flogið milli Tegel-flugvallar í Berlín og Keflavíkur fimm til sjö sinnum í viku og milli Düsseldorf og Keflavíkur þrisvar til fjórum sinnum. Guðni segir að flugin í dag séu á áætlun.

Þýska ríkisstjórnin greindi frá gjaldþroti Air Berlin í morgun og frá því að félaginu yrði veitt lán til að halda starfseminni áfram tímabundið. Þá sé verið að skoða möguleg kaup Lufthansa á hluta starfsemi Air Berlin.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×