Viðskipti innlent

Fossar markaðir bættu mest við sig

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Velta á hlutabréfamarkaði hefur aukist töluvert á milli ára.
Velta á hlutabréfamarkaði hefur aukist töluvert á milli ára. VÍSIR/DANÍEL
Fossar markaðir er það fjármálafyrirtæki sem jók hvað mest hlutdeild sína á verðbréfamarkaði á fyrstu sjö mánuðum ársins. Hlutdeild félagsins í heildarveltu á hlutabréfamarkaði var 13,9 prósent á tímabilinu, borið saman við 7,1 prósent á sama tíma í fyrra, og þá jókst hlutdeild félagsins um tæp tvö prósentustig á milli ára á skuldabréfamarkaði, þar sem hún hefur verið 12,3 prósent það sem af er ári.

Arion banki er með mesta hlutdeild fjármálafyrirtækja á hlutabréfamarkaði eða um 25,7 prósent á fyrstu sjö mánuðum ársins. Jókst hún lítillega á milli ára. Næst á eftir kemur Landsbankinn með 20,5 prósenta hlutdeild en hún hefur dregist saman um tæp þrjú prósentustig á milli ára.

Hlutdeild Íslandsbanka hefur einnig minnkað verulega á árinu. Hún var um 12 prósent á fyrstu sjö mánuðum ársins borið saman við 16,7 prósent á sama tíma í fyrra.

Á skuldabréfamarkaði er Íslandsbanki hins vegar með mestu hlutdeildina það sem af er ári, eða 17,9 prósent. Hefur hún nánast staðið í stað á milli ára. Þar á eftir kemur Landsbankinn með 16,9 prósenta hlutdeild. Hefur hlutdeildin minnkað úr 21 prósenti á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×