Um 18,6 milljarðar króna af markaðsvirði smásölurisans Haga hafa þurrkast út frá því að bandaríska keðjan Costco opnaði verslun sína í Kauptúni í maímánuði. Forsvarsmenn Haga sendu á föstudagskvöldið frá sér sína aðra afkomuviðvörun á einum mánuði þar sem varað var við því að EBIDTA félagsins – rekstrarhagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði – verði um tuttugu prósentum lægri á öðrum fjórðungi þessa árs en á sama tíma í fyrra.
Gengi hlutabréfa í Högum stóð í 39,4 krónum á hlut þegar markaðir lokuðu á föstudag. Hefur það lækkað um 28,7 prósent frá því að Costco opnaði verslun sína 23. maí síðastliðinn. Á sama tíma hefur markaðsvirði Haga lækkað um 28,8 prósent, úr 64,7 milljörðum í 46,1 milljarð.
Gengi bréfanna fór niður í 38 um miðjan júlímánuð, skömmu eftir að félagið sendi frá sér sína fyrstu afkomuviðvörun, en fyrir utan það hefur hlutabréfaverðið ekki verið lægra í tvö ár. Sérfræðingar á fjármálamarkaði sem Fréttablaðið ræddi við telja líklegt að markaðurinn bregðist nokkuð harkalega við viðvöruninni í dag og að gengið fari langleiðina niður í 37. Líkur séu á því að sala Haga batni eftir því sem líður á árið, en þó sé ólíklegt að gengið fari aftur yfir 40 í bráð.
Í viðvöruninni kom fram að sölusamdrátturinn í júlí hafi verið á sömu nótum og í júní, en þá nam hann 8,5 prósentum milli ára að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi.
Rúmir 18 milljarðar þurrkast út eftir opnun Costco

Tengdar fréttir

Önnur afkomuviðvörun frá Högum
Hagar sendu frá sér enn eina afkomuviðvörun fyrirtækisins til Kauphallarinnar í gærkvöld. Sölusamdráttur hafi verið í júlí miðað við sama tíma í fyrra. Fyrirtækið segir ljóst að breytt staða á markaði hafi mikil áhrif á félagið.