Viðskipti innlent

Aflaverðmæti 26 prósentum minni í apríl en í fyrra

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Frá Reykjavíkurhöfn. Heildarverðmæti fiskafla skipa var 26 prósentum lægri í apríl á þessu ári en í fyrra.
Frá Reykjavíkurhöfn. Heildarverðmæti fiskafla skipa var 26 prósentum lægri í apríl á þessu ári en í fyrra. Vísir/Friðrik
Aflaverðmæti íslenskra skipa námu 115 milljörðum króna á tímabilinu maí 2016 til apríl 2017 og hefur því verðmæti aflans dregist saman um rúmlega 20 prósent miðað við sama tímabil árinu á undan. Þá veiddust 109 þúsund tonn af fiski í apríl þessa árs sem eru  fimm prósentum meiri en heildaraflinn í apríl 2016. Hagstofan greinir frá.

Í apríl á þessu ári voru aflaverðmæti 26 prósent minni en á sama tímabili í fyrra og var um það bil 8,4 milljarðar króna. Þá var verðmæti botnfiskafla 22,6 prósentum minni en í fyrra eða um 6,5 milljarðar. Verðmæti þorskafla var 25,2 prósentum lægra og flatfiskaflinn dróst saman um 34,9 prósent. Uppsjávarafli dróst saman um 29 prósent.

Eftir landshlutum má sjá að verðmæti aflans í apríl hefur dregist mest saman á Norðurlandi vestra eða um 49,9 prósent. Þar á eftir koma Vestfirðir með 43,7 prósent. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×