Viðskipti innlent

Brunnur vaxtarsjóður tapaði 244 milljónum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Helgi Júlíusson, framkvæmdastjóri Brunns vaxtarsjóðs
Helgi Júlíusson, framkvæmdastjóri Brunns vaxtarsjóðs
244 milljóna króna tap varð af rekstri Brunns vaxtarsjóðs, sem er í rekstri Landsbréfa og SA Framtaks GP, í fyrra. Jókst tapið um 156 milljónir króna á milli ára. Sjóðurinn færði jafnframt niður virði eignarhlutar síns í tæknifyrirtækinu ATMO Select á árinu.

Sjóðurinn, sem var settur á stofn í febrúar árið 2015, fjárfestir í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Eigið fé sjóðsins nam 759,5 milljónum króna í lok síðasta árs og jókst um 514 milljónir á milli ára.

Sjóðurinn fjárfesti í tveimur nýjum félögum, DT Equipment og Oculis, á árinu, en fyrir átti sjóðurinn hlut í ATMO Select og Ark Technology. Bókfært virði 28,3 prósenta hlutar sjóðsins í ATMO Select var 40 milljónir í lok árs 2016, en til samanburðar átti sjóðurinn 18,4 prósenta hlut í félaginu að virði 100 milljónir króna í lok 2015. Þá var 44 prósenta hlutur sjóðsins í Ark Technology metinn á tæpar 150 milljónir í lok síðasta árs.

Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi – lífeyrissjóður og Birta eru stærstu hluthafar sjóðsins, með samanlagt yfir 75 prósenta hlut, og þá á Landsbankinn rúmlega fimmtungshlut í Brunni.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×