Íslenska 21 árs landsliðið í handbolta vann afar sannfærandi sigur á Sádí Arabíu í dag í öðrum leik sínum á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða í Alsír.
Ísland skoraði tvöfalt fleiri mörk en mótherjarnir í leiknum og vann 24 marka sigur, 48-24. Íslenska liðið var komið 24-9 yfir í hálfleik þannig að leikurinn var bara eins og létt æfing.
Ísland tók fljótlega öll völd á vellinum, eftir að Sádar komust í 2-3 skoruðu íslensku strákarnir 10 mörk í röð og komust 12-3 yfir. Það var mjög góður kafli hjá strákunum. Íslensku strákarnir bættu enn í og komust 22-6 yfir með 7 mörkum í röð. Í hálfleik var staðan 24-9 og þetta var frábær fyrri hálfleikur.
Íslensku strákarnir héldu áfram í seinni hálfleik að hafa öll undirtökum í leiknum, sem var þó aðeins jafnari en sá fyrri.
Á 40. mínútu var staðan 32-13 fyrir Íslandi og eftir 50 mínútna leik var staðan 40-18. Í leikslok munaði svo 24 mörkum, 48-24 sigur Íslands og liðið komið með fjögur stig í D riðli keppninnar.
Mörk Íslands í leiknum:
Óðinn Þór Ríkharðsson 8/1
Hákon Daði Styrmisson 7
Birkir Benediktsson 6
Sigtryggur Daði Rúnarsson 6
Kristján Örn Kristjánsson 6
Elliði Snær Viðarsson 3
Þorgeir Bjarki Davíðsson 3
Ýmir Örn Gíslason 2
Ómar Ingi Magnússon 2
Elvar Örn Jónsson 2
Aron Dagur Pálsson 2
Dagur Arnarsson 1
Markvarsla:
Grétar Ari Guðjónsson 14/2 (58%)
Viktor Gísli Hallgrímsson 7 (32%)
Íslenska liðið vann níu marka sigur á Argentínu í fyrsta leik sínum í gær og er því að byrja heimsmeistaramótið vel.
Næsti leikur íslenska liðsins er á móti heimamönnum í Alsír á föstudaginn og fá því strákarnir frídag á morgun. Marokkó og Króatía eru einnig í þessum riðli en fjórar efstu þjóðirnar tryggja sér sæti í sextán liða úrslitum keppninnar.
Þetta verður hörkuleikur á móti Alsír en það má búast við að öll sætin í 8.200 manna höllinni verði setin og á bandi heimamanna.
Íslensku strákarnir skoruðu tvöfalt meira en mótherjarnir
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið

Diogo Jota lést í bílslysi
Fótbolti


Yfirlýsing frá Liverpool: „Ólýsanlegur missir“
Enski boltinn

Glódís mætti ekki á æfingu
Fótbolti





