Fastir pennar

Trunt trunt og tröllin í hillunum

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Ég heyrði um daginn skemmtilegt spjall sem Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður og ferðafrömuður hélt þar sem kom fram ýmislegt um áhrif erlendra ferðamanna á íslenska menningu, jákvæð og neikvæð. Meðal þess sem Ósk nefndi var að túrismi er hér mun eldri en við gerum okkur alltaf grein fyrir. Raunar man ég eftir umkvörtun hjá William Morris árið 1871 yfir alltof miklum túrisma við Geysi, sem sé orðinn eins og trúður, sífellt að sprella fyrir áhorfendur. En sem sé: Ósk sagði frá því að í byrjun 20. aldar hafi Sigfús Eymundsson tekið landslags-ljósmyndir og sett á kort til að selja túristum; nokkurs konar lundamyndir þess tíma. Sömu mótíf og eru á þessum kortum rötuðu svo á málverk eftir Þórarin B. Þorláksson og aðra íslenska málara. Íslenska landslags- og sófamálverkið á sér þannig vissar rætur í túristakortum; enda ljósmyndin á undan málverkinu hér á landi; vitna um hugmynd íslenskra manna um það sem útlendingum kynni að þykja fallegt.

Túristaskran þjóðanna

Og kannski voru það útlendingar sem sögðu Íslendingum að hér væri fallegt – áður var allsráðandi auga sauðfjárbóndans, og er raunar enn hjá mörgum, sem fyrst og fremst hugsa um stundlega hámarksnýtingu, og telja túrista í tonnum en ekki einstaklingum. Og nú á seinni árum hafa útlendingar kennt okkur að meta lundann, þennan kátlega og fallega fugl, sem Íslendingar hlógu að þar til hann bjargaði efnahag þjóðarinnar.

Það er gaman að skoða túristaskran því að þar kjarnast hugmynd viðkomandi þjóða um sjálfar sig. Það er í kitschinu sem hún birtist okkur tær og óspjölluð af listrænni viðleitni. Kitsch: mig minnir að einhver hafi reynt að þýða þetta þýska alþjóðaorð um ósmekklegan listvarning og óvottaðan af þartilbærum listfræðingum með íslenska orðinu „stílglundur“ – kannski mætti líka kalla þetta „sætmullulist“ – en hvorugt nær alveg sömu áhrifum og hinn þýski blísturshljóðaklasi.

Þetta er sparimynd viðkomandi þjóðar af sér: Við erum fögur og rómantísk hafmeyja á steini, segja Danir (sem þeir eru að vísu ekki) en Bandaríkjamenn bjóða upp á frelsisstyttuna enda telja þeir að frelsið eigi heimili sitt og varnarþing þar vestra; Frakkar eru með Eiffelturninn – elegant hönnun – en þegar kemur til Vínarborgar er það hausinn á Mozart sem táknar menningarlega sjálfsmynd borgarbúa. Tréklossar og myllur í Hollandi; nautið spænska, senjórítan í flamenco-sveigju og gítarinn en Big Ben í Englandi og þannig mætti ganga á röðina meðal þróaðra túristaþjóða. Yfirleitt snýst þetta dót um manninn, mennskuna, menninguna, mannvirkin, mannvitið. Allt þetta dót vitnar um fínlegt handbragð, fágaða og þaulræktaða sjálfsmynd, og skilaboðin: hér er „öruggur staður að vera á.“

Íslenskt kitsch

Íslenska kitschið er öðruvísi. Það er ekki bara ljótt heldur forljótt. Þar er beinlínis unnið með ljótleikann. Þar er gert út á hið hráa og hrjúfa, hið klunnalega og klúra, hið hálfkaraða. Íslenska kitschið er meðvitað klastur. Það er gróðurlaust, það er auðn, það er storknað hraundrýli, mótað af hendingunni. Við sjáum þennan nakta ljótleika alveg frá því að við komum til landsins, og á leiðinni frá Leifsstöð blasa við okkur einhvers konar steinvörðu-skúlptúrar, sem líkjast þó alls ekki vörðum heldur virka meira eins og þrekkur sem tröll hafa skilið eftir sig hér og þar á leið sinni.

Tröllin. Þau eru alls staðar, í öllum hillum skælandi sig framan í lunda og innan um brennivínsstaup, Þórslíkneski og víkinga hristandi skálmir – og kindurnar auðvitað.

Ég fór að hugsa um þetta um daginn þegar ég átti leið í gegnum Akureyri og kom við í göngugötunni, þar sem myndir af þeim Grýlu og Leppalúða eru í fullri stærð og biðröð af heilluðum túristum að láta taka af sér myndir með þeim – sambærilegar fígúrur eru á Laugaveginum í Reykjavík, muni ég rétt. Átrúnaður á tröll hefur sennilega fylgt landsmönnum frá elstu tíð og vitnar um forna trú hér á stokka og steina sem náði að blandast kristinni trú og lifa með – og í – henni á einhvern hátt. Þetta endurspeglast til dæmis í sögunni af því þegar Guðmundur biskup Arason var að vígja í Drangey og loppan kom út úr bjarginu og rödd rumdi: „Vígðu ekki meira Gvendur biskup, einhvers staðar verða vondir að vera.“ Nú eru tröllin í miðjum göngugötum og í hillum verslana.

Hvaða sögu erum við að segja útlendingum með þessum tröllum? Þau tákna eitthvað í íslenskum hugarheimi, ekki bara hulið líf í náttúrunni heldur líka öfl innra með okkur, sem sálfræðingar fóru seinna að kenna við frumhvatir. Tröllin eru öll á hvatastiginu – kynóð og sísvöng, gráðug og grunnhyggin; ótaldar tröllasögur sem ganga út á skessur sem hrifsa til sín sauðamenn, hafa af þeim gagn og gæði, sjóða þá svo og éta.

Grýla og Leppalúði: eru þau sjálfsmynd þjóðarinnar?






×