Viðskipti innlent

Stórlækka verð eftir að þau fóru að kaupa inn í Costco

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Einar Ólafsson, kaupmaður, er ánægður með komu Costco til Íslands.
Einar Ólafsson, kaupmaður, er ánægður með komu Costco til Íslands. Vísir/Eyþór/Facebook
Verslunin Einar Ólafsson á Akranesi hefur bætt heildverslun Costco í hóp þeirra sem verslunin á í viðskipti við og hafa nú þegar all margar vörutegundir stórlækkað í verði. Þetta kemur fram á Facebook síðu verslunarinnar.

Þar segir jafnframt að vörutegundum sem lækka muni í verði muni koma til með að fjölga jafnt og þétt á komandi vikum.

Í samtali við Vísi segir Guðni Einarsson, sonur eiganda verslunarinnar, að innkoma Costco á markaðinn hafi breytt miklu fyrir verslunina á þeim stutta tíma sem hún hefur verið opnuð.

Hann tekur sem dæmi að Monster orkudrykkur frá Vífilfell hafi áður kostað í innkaupum 269 krónur með skatti. Verslunin selji hann nú út úr búð á 129 krónur.

„Það er gríðarlegur verðmunur. Þetta eru ekki bara einhverjar krónur. Þetta er í fyrsta sinn sem okkur finnst við raunverulega geta keppt við aðrar verslanir.“

Þá er sjálfur eigandi verslunarinnar, Einar Ólafsson, gríðarlega ánægður og segir við Vísi að verðið sé miklu betra heldur en það sem áður hafi þekkst.

„Við fögnum komu Costco. Þetta hefur breytt miklu fyrir okkur enda reynum við alltaf að fá sem besta verð þegar maður rekur verslun sama hvar það er að finna. Eðli málsins samkvæmt.“

Óhætt er að segja að Costco hafi komið líkt og stormsveipur inn í íslenskt samfélag en mikill áhugi hefur verið á opnun verslunarrisans á Íslandi og hafa þúsundir gesta heimsótt Costco í Kauptúni á fyrstu vikum opnunarinnar.


Tengdar fréttir

Velta Costco meiri en Bónuss

Fyrstu dagana eftir opnun Costco var velta verslunarinnar meiri en í öllum verslunum Bónuss, um allt land. Um er að ræða mun stærri hlutdeild á markaði en keppinautar Bónuss og Krónunnar hafa hingað til haft.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×