Viðskipti innlent

Ólafur svarar fyrir sig á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Ólafsson, fjárfestir.
Ólafur Ólafsson, fjárfestir. vísir/vilhelm
Ólafur Ólafsson, fjárfestir sem oftast er kenndur við Samskip, kemur í dag á fund stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar Alþingis til að ræða skýrslu rannsóknarnefndar um einkavæðingu Búnaðarbankans.

Rannsóknarnefndin skilaði af sér skýrslu um aðkomu þýska bankans Hauck & Auf¬häuser að einkavæðingu Búnaðarbankans í mars síðastliðnum.

Í skýrslunni er Ólafur borinn þungum sökum og sagður hafa blekkt stjórnvöld, almenning og fjölmiðla þegar bankinn var einkavæddur á sínum tíma þar sem þýski bankinn hafi í raun aldrei verið eiginlegur kaupandi að hlut í Búnaðarbankanum heldur aðeins leppur fyrir aðra.

Óskaði Ólafur eftir því að koma á fund nefndarinnar til þess að svara þessum ásökunum. Í gær lét Ólafur nefndinni í té gögn sem hann hyggst leggja fram á fundinum í dag en gögnin telja mörg hundruð blaðsíður.

Ólafur neitaði upphaflega að gefa skýrslu hjá rannsóknarnefndinni og fór málið alla leið til Hæstaréttar sem komst að þeirri niðurstöðu að hann gæti ekki komist hjá því að mæta.

Fundurinn hefst klukkan 15:15 í dag en hann er opinn fjölmiðlum og verður fjallað ítarlega um hann hér á Vísi.


Tengdar fréttir

Ólafur búinn að afhenda gögnin

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur fengið afhent þau gögn sem Ólafur Ólafsson fjárfestir hyggst kynna nefndinni í fyrramálið. Nefndarmenn fengu gögnin í hendurnar síðdegis en þeir fóru fram á að fá að kynna sér þau.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.