Viðskipti innlent

Svipmynd Markaðarins: Ein besta ákvörðunin að fara í kór

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gunnar Þór Pétursson tók á dögunum við nýju starfi í Brussel.
Gunnar Þór Pétursson tók á dögunum við nýju starfi í Brussel. Vísir/GVA
Gunnar Þór Pétursson tók við starfi framkvæmdastjóra hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í Brussel þann 1. maí síðastliðinn. Hann fer þá í leyfi frá störfum sem prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann hefur undanfarin ár verið í kór Lindakirkju undir stjórn Óskars Einarssonar, og segir það eina bestu ákvörðun sem hann hefur tekið að taka þátt í því starfi.

Gunnar Þór ólst upp á Suðureyri við Súgandafjörð og í Árbænum. Hann lauk grunnskólaprófi frá Árbæjarskóla og stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands. Gunnar Þór lauk prófi í lögfræði frá HÍ 1997. Hann er með L.LM. gráðu í Evrópurétti frá lagadeild Háskólans í Lundi og lauk einnig doktorsprófi í lögum þaðan árið 2014. Gunnar Þór hefur áður starfað hjá Eftirlitsstofnun EFTA, verið lögmaður hjá Logos lögmannsstofu og var lögfræðingur Actavis Group 2005 til 2008. Hann hefur verið í fullu starfi hjá Háskólanum í Reykjavík frá árinu 2008.

Hvað hefur komið þér mest á óvart það sem af er ári? Það var margt óvænt sem gerðist á sl. ári, í þjóðmálunum og á alþjóðavettvangi, sem enn hefur ekki verið toppað á þessu ári, sem betur fer. Af öðru mikilvægu, þá finnst mér úrslitakeppnin í körfunni hafa verið ótrúlega góð og gæðin hafa reyndar komið mér á óvart. Góð blanda af góðum erlendum og íslenskum leikmönnum.

Hvaða app notarðu mest? Æ, vildi að ég gæti sagt eitthvað gáfulegt, en ætli það sé ekki mest Facebook – annars nota ég Spotify mjög mikið, er oft með tónlist í gangi og hef gaman af því að hlusta á tónlist, ekki síst að kynnast nýju efni og tónlistarfólki.

Hvað gerir þú í frístundum þínum? Hef undanfarin ár verið í kór Lindakirkju undir stjórn Óskars Einarssonar, sem er ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. Virkilega endurnærandi og góð tilbreyting. Kórinn syngur í öllum messum, en hefur líka verið duglegur að koma fram, m.a. verið þátttakandi í uppfærslu Jesus Christ Superstar undanfarið í Hörpu og Hofi. Er að eigin mati ekkert sérstakur söngvari, en finnst ég hljóma ótrúlega vel þegar ég syng með kórnum. Þar fyrir utan eru gönguferðir á lág- og hálendi með minni ástkæru eiginkonu og/eða í góðum hópi vina og fjölskyldu ofarlega á lista.

Hvernig heldur þú þér í formi? Ég er sæmilega duglegur í crossfit og hlaupum. Það er góð blanda, hægt að hugsa margt á hlaupunum og kom sjálfum mér á óvart með að klára eitt maraþon og nokkur hálf. Crossfit er frábær alhliða hreyfing sem passar mér vel. Lagði golfsettinu fyrir sex árum eftir skamman og tilþrifalítinn feril. Gæti samt hugsað mér að taka kylfurnar fram aftur ef áskoranir berast.

Hvernig tónlist hlustar þú á? Ég er ekki alæta á tónlist, en hlusta þó á frekar fjölbreytt efni. Rokk, fusion djass, gospel og smá klassík er það helsta. Finnst líka mjög gaman að hlusta á nýja íslenska tónlist, er t.d. að hlusta á Júníus Meyvant þessa dagana.

Ertu í þínu draumastarfi? Er í draumastarfi og á leið í draumastarf – hvernig hljómar það? Búinn að vera í akademíunni sl. níu ár. Það hefur verið góður tími. Mér finnst mjög gaman að kenna – sérstaklega þegar mér tekst að kveikja neista hjá nemendum (það gerist!). Ég hef líka verið töluvert í erlendu rannsóknarsamstarfi sem hefur opnað margar dyr. Nýja starfið felur í sér góða blöndu af stjórnun og lögfræði, á sviði sem ég þekki vel og ég er spenntur fyrir þeirri tilbreytingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×