Viðskipti innlent

Veitingafólk í Kvosinni bítur á jaxlinn

Sæunn Gísladóttir skrifar
Framkvæmdir hafa staðið yfir í um ár. Útlit er að þær muni standa yfir fram til loka árs 2018
Framkvæmdir hafa staðið yfir í um ár. Útlit er að þær muni standa yfir fram til loka árs 2018 Fréttablaðið/Eyþór
Framkvæmdir sem standa nú yfir við Hafnartorgsreitinn hafa töluverð raskandi áhrif á veitingaþjónustu við svæðið. „Við höfum fundið fyrir minnkandi traffík út af þessu. Þegar traffíkin minnkar er minna að gera,“ segir Guðrún Kristmundsdóttir, forstjóri Bæjarins beztu.

Guðrún ítrekar þó að þegar framkvæmdum ljúki verði svæðið mun skemmtilegra. „Þetta hefur náttúrulega áhrif en við verðum mjög glöð þegar þetta verður búið því umhverfið verður miklu fallegra og skemmtilegra en það var fyrir.“

Framkvæmdirnar hafa staðið yfir í um ár og útlit er fyrir að þær muni standa yfir fram til ársloka 2018. „Þetta á eftir að versna. Þeir eiga eftir að flytja rafmagnsskúrinn sem er í horninu á annan stað og það verður rosa mikið rask sem fylgir því. Þetta er ekki búið enn, en við verðum bara að vera þolinmóð,“ segir Guðrún.

Hún segir röskunina helst lýsa sér í verra aðgengi. „Það er mjög erfitt að komast þarna að. Það liggur eiginlega við að bara fuglinn fljúgandi komist þarna að.“ Borgin hefur ekki boðið pylsustaðnum bætur vegna framkvæmdanna, og ekki hefur Guðrún farið fram á það.

Jakob Hörður Magnússon, eigandi veitingastaðarins Hornsins, segir framkvæmdirnar leggjast ágætlega í sig. „Þetta bara tekur svo langan tíma, þetta verður allt voða flott þegar þetta er búið, ég get ekki betur séð

Þetta hefur einhver áhrif, svona slæmt aðgengi, og mér finnst þetta ganga hægt. Ég get þó ekki beint sagt að það sé minni traffík út af þessu,“ segir Jakob.

Hann telur bílastæðaskort í miðbænum vera að verða mikið vandamál sem lítið sé talað um. „Ég hugsa að það geti líka haft áhrif, en ég finn ekki fyrir þessu enn þá, þetta er allt í lagi.“

Stóra vandamálið sem Hornið standi frammi fyrir sé, líkt og hjá Bæjarins beztu, skert aðgengi. 

„Það er skert aðgengi að veitingastaðnum mínum, en það er líka að verða svo erfitt fyrir menn að koma með vörur, ekki bara til mín heldur á öll veitingahúsin sem eru hérna í Kvosinni. Þetta er orðið svo þröngt allt þar sem þessar framkvæmdir eru. En ég held að menn bíti bara á jaxlinn og taki þessu með æðruleysi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×