Viðskipti innlent

Hætti vegna Panamaskjala en vill laun

Sveinn Arnarsson skrifar
Kári Arnór var framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs.
Kári Arnór var framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs. Vísir
Kári Arnór Kárason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs hefur stefnt sjóðnum vegna vangoldinna launa við starfslok hans. Kári Arnór sagði upp fyrir ári eftir að upp komst um eignarhald hans í fyrirtækjum í skattaskjólum.

Hlynur Jónsson, lögmaður Kára, segir að ekki hafi verið staðið við ráðningarsamning þegar Kári lét af störfum. „Án þess að fara í upphæðir sem slíkar þá er það rétt að mál hefur verið tekið fyrir í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Umbjóðandi minn telur að ákvæði um starfslok hafi ekki verið fylgt eftir þegar hann lét af störfum. Að öðru leyti vil ég ekki ræða málið frekar,“ segir Hlynur.

Kári gaf út yfirlýsingu fyrir ári um að hann myndi hætta störfum hjá sjóðnum vegna aðkomu sinnar að fyrirtækjum í skattaskjólum. Var hann fyrsti einstaklingurinn hér á landi til að segja upp störfum vegna leka Panamaskjalanna.

Vitnaleiðslur verða 8. september. Fyrrverandi og núverandi stjórnarformaður auk skrifstofustjóra lífeyrissjóðsins verða kallaðir til.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Fleiri fréttir

Sjá meira


×