Viðskipti innlent

Segja niðurstöðuna hafa komið sér í opna skjöldu

Haraldur Guðmundsson skrifar
Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra, seðlabankastjóri og forstjóri VÍS.
Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra, seðlabankastjóri og forstjóri VÍS. Vísir/Pjetur
„Þetta kom mér svo sannarlega á óvart. Ég hélt að það væri búið að skoða þetta og að Ríkisendurskoðun og fleiri væru búnir að fara yfir þetta,“ segir Margeir Daníelsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samvinnulífeyrissjóðsins, sem tók þátt í kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum árið 2003, um niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis.

„Fyrir mig er þetta stórfurða því ef rétt er þá varð ég aldrei var við annað en að þetta væri löglegur gjörningur. Ég skal ekkert segja til um hvernig að þessu var staðið en við minni hluthafar, eins og við og Samvinnutryggingar, vissum ekki af þessu. Ég mun ræða við aðra aðila í þessu máli en það er nú ekki mitt að krefja menn svara ef ekkert glæpsamlegt athæfi átti sér stað,“ segir Margeir.

Finnur Ingólfsson, fyrrverandi ráðherra og seðlabankastjóri, sem var forstjóri VÍS þegar félagið tók þátt í kaupunum, vildi lítið tjá sig um niðurstöðuna þegar blaðamaður náði tali af honum í gær.

„Ég hef ekkert um málið að segja því ég vissi ekki betur en að bankinn ætti þetta,“ sagði Finnur.

Í viðtali við Fréttablaðið í maí í fyrra kannaðist Finnur ekki heldur við að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hefði verið leppur í viðskiptunum og vísaði í samantekt Ríkisendurskoðunar um söluna frá 2006.

„Finnst þér líklegt að alþjóðlegur banki standi í slíku?“ sagði Finnur þá. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×