Innlent

Uppnám í Leifsstöð: Allir settir í vopnaleit og von á töfum á flugi

Birgir Olgeirsson skrifar
Mynd sem flugfarþegi tók í flugstöðinni rétt í þessu.
Mynd sem flugfarþegi tók í flugstöðinni rétt í þessu. Twitter
Flugstöð Leifs Eiríkssonar var rýmd síðdegis í dag og þurftu allir þeir farþegar sem voru þar að fara í gegnum vopnaleit. Um tvö til þrjú þúsund manns eru í flugstöðinni og er ekki vitað hvað þessi vopnaleit mun taka langan tíma.

Ástæðan fyrir vopnaleitinni er sú að um klukkan þrjú í dag lenti á Keflavíkurflugvelli flugvél sem var að koma frá Nuuk á Grænlandi. Farþegar vélarinnar höfðu farið í gegnum vopnaleit á flugvellinum í Nuuk en sú vopnaleit stenst ekki alþjóðlegar kröfur og því stóð til að gera vopnaleit á farþegunum við komuna inn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Það urðu hins vegar mistök sem urðu þess valdandi að flugvélinni var ekið að röngu landgönguhliði og fóru farþegarnir því inn í flugstöðina án þess að fara í gengum vopnaleit. Þegar mistökin lágu fyrir var flugstöðin rýmd og allir sem þar voru boðaðir í vopnaleit, vegna þess að farþegarnir frá Nuuk höfðu blandast við aðra farþega sem voru í flugstöðinni.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við Vísi að ekki liggi fyrir endanleg tala hversu margir þurfa að fara í gegnum vopnaleit, en það sé á bilinu tvö til þrjú þúsund manns.

Ekki er vitað hversu langan tíma þetta mun taka en þetta mun valda seinkunum á flugi.

Guðni ítrekaði í samtali við Vísi að engin hætta væri á ferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×