Lífið

Rétttrúnaðurinn kæfir umræðuna

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Sigríður Andersen segir skipta litlu máli í stóra samhenginu þó við myndum öll hætta að keyra bílana okkar.
Sigríður Andersen segir skipta litlu máli í stóra samhenginu þó við myndum öll hætta að keyra bílana okkar. Visir/Stefán

Sigríður Andersen er sá stjórnmálamaður sem gjarnan telst lengst til hægri af þeim þingmönnum sem nú sitja á þingi. Hún gætti hagsmuna atvinnulífsins lengi vel hjá Viðskiptaráði áður en pólitíkin tók yfir og hagsmunir atvinnulífsins eru henni hugleiknir. Löngu áður en Sigríður var kosin á þing tók hún virkan þátt í pólitík með ýmsum hætti; í innra starfi Sjálfstæðisflokksins, sem pistlahöfundur í dagblöðum og í gamla morgunsjónvarpi Stöðvar 2. Pistlar hennar hafa gjarnan vakið athygli og sumir verið mjög umdeildir. Hún er gift Glúmi Björnssyni efnafræðingi og saman eiga þau tvær dætur. Sigríður gekk í Landakotsskóla, Hagaskóla, Menntaskólann í Reykjavík og þaðan í lögfræðideildina í HÍ.

„Ég kem af frjálslyndu, borgaralega þenkjandi Sjálfstæðisfólki. Ég hef alltaf haft áhuga á pólitík og starfað í henni með einhverjum hætti. Ég man eftir mér í barnaskóla að fara með innblásnar ræður um stöðu þjóðmálanna og skráði mig svo í Heimdall um leið og ég hafði aldur til, fimmtán ára. Ég hef alltaf pælt í þessu, hvernig þjóðfélagi við viljum búa í, hvað við viljum banna og hvort sé raunar ástæða til að banna hluti,“ útskýrir Sigríður, en hugsjónir hennar í pólitík eru nokkuð þekktar; hún vill lægri skatta, sem minnst afskipti ríkisvaldsins og styður einkaframtakið alla leið.

Pólitískur rétttrúnaður
Hún kallar eftir því að fleiri stígi fram og blandi sér í þjóðfélagsumræðuna og finnst bagalegt ef póli­tískur rétttrúnaður heldur aftur af fólki í þeim efnum. „Menn eru ragir við að blanda sér í umræðuna. Ég hef stundum á tilfinningunni að Íslendingar eigi þetta ekki alveg til hjá sér, að tjá skoðanir sínar opinberlega, koma fram og skrifa greinar. Þetta er eitthvað sem mér finnst að eigi að hvetja til, helst strax í barnaskóla.“

Sigríður segist til að mynda sakna þess að sjá hugleiðingar dómara og lögmanna um lögfræði birtast opinberlega. „Þetta eru stéttir sem eiga að hafa þetta hlutverk í umræðunni, um þróun réttarins eins og hún verður utan dómstóla og löggjafans.“
Nú þegar læk á Facebook getur verið þrungið merkingu og orðið til þess að menn þurfi að lýsa sig vanhæfa til að fjalla um ákveðin mál, þá er blaðamanni spurn hvort þetta sé ekki vonlaus hugmynd.

„Auðvitað getur það verið erfitt. Við búum í litlu samfélagi. Það hefur nú alveg hvarflað að mönnum að flytja dómstólana bara aftur til Danmerkur, þó að ég sé reyndar ekki í þeim hópi. Við höfum hér tæki og tól til þess að vinna á hlutum eins og vanhæfi í málum og öðru, það eru til reglur um það sem eru í stöðugri þróun samhliða þess að samfélagið okkar breytist.“

Við erum ekki varnarlaus
Á dögunum var greint frá því að á árunum fyrir hrun hefðu nokkrir hæstaréttardómarar átt hluti í bönkunum og fyrirtækjum. Sigríður segir gríðarlega mikilvægt að slíkar upplýsingar liggi fyrir og menn upplýsi samviskusamlega um slíkt fyrirfram.

„En upp að einhverju marki verður að játa það að fólk verður einhvers staðar að geyma peningana sína, en þá þarf að liggja fyrir að þeir hafi þessa tilteknu hagsmuni og svo verða menn að gæta þess að taka ekki að sér mál þar sem hægt er að efast um að hlutleysis hafi verið gætt. Mér finnst það almennt hafa gengið vel. En svo koma upp svona tilvik, eins og gerðist núna, og það þarf að skoða þau vel. Hins vegar ætlar mitt ráðuneyti ekki í neina sérstaka vinnu við að skoða þetta tiltekna mál aftur í tímann.“

Hún segir það hlutverk lögmanna þeirra sem á sér telja brotið að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna. „Og ég treysti fyrrverandi kollegum mínum, lögmönnunum, til þess. Ef svona álitamál eru á lofti þurfa menn einfaldlega að kalla eftir upplýsingum og eftir atvikum krefjast endurupptöku mála. Við erum ekkert varnarlaus gegn þessu. En það þarf klárlega að hafa reglur sem halda mönnum á tánum – dómurum eins og öðrum.
Hæstiréttur hefur þegar tekið upp reglur sem miða að því að upplýsa um hvers kyns hagsmunatengsl. En það fer betur á því að það séu settar reglur fyrir alla dómstólana og ég mun fara í það mál, í mínu ráðuneyti.“

Um málefni ráðuneytisins segir Sigríður engar stórfelldar breytingar verða á, frá því að Ólöf Nordal heitin hélt um stjórnartaumana.Sigríður Andersen

Þurfum að vera raunsæ
„Hins vegar er komin ný ríkisstjórn og þar af leiðandi nýr stjórnarsáttmáli. Svo koma upp nýjar og óvæntar áskoranir eins og með þennan gríðarlega fjölda hælisumsókna sem nú berast okkur. Það þarf að bregðast við þeim fljótt. Ég hef lýst því yfir að ég vilji gera það með sama hætti og Ólöf [Nordal], stytta málsmeðferðartíma og reyna að vinna þessi mál hratt. 

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að vera opin fyrir útlendingum sem hingað vilja koma, almennt. Það eru hérna yfir þrjátíu þúsund útlendingar og eru langflestir á vinnumarkaði. Það er stundum talað um að Ísland sé lokað land, en það er það ekki. Og svo það sé fært til bókar þá gætum við aldrei verið án þessara útlendinga sem eru hér, hvort sem þeir komu hingað sem kvótaflóttamenn eða hælisleitendur eða eftir hefðbundnari leiðum. 

Við þurfum samt að vera raunsæ. Við höfum ákveðið svigrúm og þessi ríkisstjórn vill fjölga í þeim hópi flóttamanna sem við tökum á móti á ári, en þá er líka mikilvægt að við gerum það almennilega. Þá skiptir máli að kerfið sé ekki allt undirlagt einhverjum tilhæfulausum hælis­umsóknum eins og hefur verið undanfarið.“

Sama gildi um alla
Um helmingur umsækjenda um hæli kemur frá löndum Balkanskagans. Þessir hælisleitendur fá nær undantekningarlaust synjun en dvelja samt hér mánuðum saman á meðan botn fæst í málin. Sérstaklega sækja Albanar í miklum mæli um hæli hér á landi. Samkvæmt bókum Útlendingastofnunar telst Albanía öruggt ríki, þó að margir Albanar hafi stigið fram og sagst ekki geta fengið heilbrigðisþjónustu í sínu landi eða óttist blóðhefnd, enda spilling talin mikil í landinu.

„Útlendingastofnun verður að vinna eftir reglum og verður að gæta jafnræðis. Á síðasta ári voru um 70 eða 80 prósent umsóknanna tilhæfulaus. Þar fer mikið fé, mannafli og tími. Við getum ekki staðið frammi fyrir mörgum svona árum án þess að eitthvað gefi sig hreinlega. Útlendingastofnun verður að veita ríkisborgararétt eftir hlutlægum reglum sem eiga að vera niðurnjörvaðar. En það tíðkast enn að menn séu að bera umsóknir undir Alþingi og á hverju ári eru einhverjir sem fá ríkisborgararétt með þessum hætti.

Þetta er ekki í anda þess gagnsæis og jafnræðis sem við viljum hafa. Eitt af því sem ég vil gera er að tryggja að það sé Útlendingastofnun sem sjái um þetta. Allt þetta fólk sem ber sínar umsóknir undir Alþingi á það sameiginlegt að uppfylla ekki skilyrðin fyrir því að fá hér hæli, þó að þetta fólk sé áreiðanlega vænt og gott og hafi alls kyns ástæður fyrir því að vilja setjast hér að.“

Ísland of lítið
En þú sem stóðst í hagsmunagæslu fyrir atvinnulífið, er ekki einmitt ástæða til þess að fá hingað sem flestar vinnandi hendur og stærri markað? „Jú, Ísland er að mörgu leyti of lítið til þess að reka og bjóða upp á þá þjónustu sem fólk gerir kröfu um í dag. Það er ekki síst þess vegna sem við eigum að fagna því að hingað vilji koma fólk og setjast að – til að stækka markaðinn. Það er líka ástæða til þess að uppræta þessar óþörfu, tæknilegu hindranir sem venjulegt fólk sem hingað kemur í góðum tilgangi þarf að standa frammi fyrir, ótrúlegt flækjustig, margs konar leyfi og umsóknir á umsóknir ofan.“

Hún segir fólk sem vilji taka á móti fleiri flóttamönnum og hælisleitendum gjarnan líta á stjórnvöld sem sökudólginn í þessum efnum.

„En verkalýðsfélögin og Vinnumálastofnun í samráði við aðila á vinnumarkaði hafa að miklu leyti stjórnað flæði fólks til landsins. Það eru til reglur um að fólk sem hingað kemur til að starfa í ákveðinni stétt utan EES eigi erfiðara með að koma ef það vantar ekki fólk í nákvæmlega þá stétt. Ef fólk er ekki sérfræðingar á einhverju þröngu sviði, eins og til dæmis sushi-kokkur eða eitthvað, þá getur verið mjög erfitt fyrir fólk utan EES að fá leyfi til að vinna. Ég hefði áhuga á því að liðka þarna fyrir. 

Að því sögðu eru auðvitað sjónarmið fyrir þessu. Atvinnumarkaðurinn ber ekki endalaust innflæði af til dæmis verkafólki. Við höfum búið mjög vel að því sem samfélag að hér er aldrei viðvarandi atvinnuleysi. Það þarf auðvitað að passa að sú staða breytist ekki.“

Vildi helst leggja RÚV niður
Sigríður hefur verið gagnrýnin í gegnum tíðina á það að ríkisútgjöld séu alltof há. Nú þegar hún er orðin framkvæmdarvaldið, hvað hyggst hún gera í því ? „Það er auðveldara að tala um en í að komast í mínu ráðuneyti. Þar höfum við stofnanir sem eru grundvallarstofnanir í samfélaginu; ef ríkisvaldið hefur á annað borð eitthvert hlutverk þá er það kannski þetta: rekstur dómskerfis, dómsvaldið, landvarnir og löggæsla. Að standa vörð um réttindi borgaranna, eignarrétt og líf og limi – og sjálfstæði ríkisins. Það sem stendur helst upp á mig er að tryggja að því takmarkaða fé sem mínu ráðuneyti er skammtað sé varið í það sem við teljum brýnast.“

Hins vegar telji hún að ríkið eigi til dæmis alls ekki að standa í rekstri fjölmiðla. Þar sé hægt að skera niður. „Með því er ég ekki endilega að ýta því út af borðinu að menn geti styrkt íslenska dagskrárgerð og annað – en það er hægt eftir öðrum leiðum. Mér finnst einfaldlega fráleitt að ríkið reki fjölmiðil, með margar rásir og mikil útgjöld. Ég geri enga kröfu til þess að fréttastofa ríkisins haldi hlutleysi eða að efnistökin séu eitthvað sérstök. Á fréttastofu ríkisútvarpsins er bara fólk að vinna, sem hefur sínar skoðanir eins og annað fólk. Skoðanir reka mann áfram. Vonandi starfar fólk þar faglega, en kröfu um hlutleysi held ég að sé mjög erfitt að halda til streitu,“ útskýrir Sigríður og segir, aðspurð, kannski einhvern tíma hafa verið rök fyrir fjölmiðli í eigu ríkisins en sá tími sé löngu liðinn.

„Kannski var allt í lagi að halda þessu úti þegar það var heilmikið verk að kaupa tæki til útsendingar. Sú rök eru ekki lengur til staðar, það getur hver sem er gert þetta og þar fyrir utan er fullt af fjölmiðlum starfrækt í landinu. Það er ekki eins og þetta ágæta fólk sem vinnur á RÚV myndi hverfa þótt ríkið myndi hætta að reka miðilinn.“

Er ekki fulllangt gengið að vilja leggja RÚV niður? Stofnunin hefur eftir allt saman lögbundið hlutverk og geymir vænan hluta menningararfs þjóðarinnar. „Í pólitískum raunveruleika, þá ætla ég ekki að berjast fyrir því að RÚV verði lagt niður eða selt, en það gæti vel komið til greina að takmarka reksturinn við eins og eina útvarpsstöð. Það er möguleiki að taka stofnunina af auglýsingamarkaði en þá kemur þessi krafa um meira fjármagn frá ríkinu. Mér finnst þessi umræða raunar vera sérstök, því það er ekki hægt að vera endalaust í bútasaumi á ónýtu kerfi. Þetta er samkeppnisrekstur og ríkið á ekki heima í slíku umhverfi.“

Einkavæða heilbrigðiskerfið
Að sama skapi myndi Sigríður vilja hagræða í rekstri heilbrigðisþjónustu.
„Ég myndi vilja færa hana frekar í hendur einkaaðila. Ég myndi ekki endilega vilja draga úr fé til málaflokksins – en heilbrigðiskerfið er málaflokkur sem mun bara stækka, með nýrri tækni og breyttri aldurssamsetningu þjóðar. Þetta mun allt kosta. Ég held að það væri til velfarnaðar ef menn bæru meiri ábyrgð á því að gera sem mest úr þessum peningum, sem er kannski ekki í dag. En þetta er svo sem ekkert á dagskrá. Ég er með alls konar skoðanir sem eru ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar,“ segir Sigríður og hlær.

Yfirgengileg skattlagning
Hún hefur áður viðrað skoðanir sínar á kynbundnu launamisrétti, sem hún segir engan hafa fært sönnur fyrir að sé til. Þá hefur hún látið að sér kveða í umhverfismálum, og m.a. rætt að bifreiðar og bensín beri alltof háa skatta. Þó er hún hluti af ríkisstjórn sem lagði fram stjórnarsáttmála þar sem jafnlaunavottun og umhverfismál skipuðu stóran sess.
„Á síðasta kjörtímabili fannst mér ég raunar eini þingmaðurinn sem lét í sér heyra í þessum málaflokki. Í þessu efni vil ég til dæmis segja að bifreiðar eru ein stærsta fjárfesting hverrar fjölskyldu á eftir húsnæði og mér finnst einfaldlega yfirgengilegt hvernig bifreiðar og bensín er skattlagt. Kerfið er ekki gegnsætt og þetta er svo óendanlega flókið og marglaga. M.a. eru alls kyns skattar sem eiga að fara í aðgerðir gegn losun koltvísýrings,“ útskýrir Sigríður og heldur áfram:

,,Ég segi, 70 prósent losunar hér á landi eru út af framræstu landi og ekki nema fjögur prósent frá bílum. Það segir manni að öll þessi skattlagning á bíla, sem er mjög íþyngjandi fyrir heimilin og hindrar endurnýjun bílaflotans, er gagnslaus. 
Hafi menn raunverulegan áhuga á því að draga úr losun koltvísýrings á Íslandi ættu menn frekar að huga að því að endurheimta votlendið og leyfa bíleigendum að njóta vafans. Það er í mínum huga algjörlega ljóst að ef við ætlum að draga hér úr losun þá myndi ekki skipta máli þótt við myndum öll hætta að keyra bíla, það myndi hafa mjög lítil áhrif í stóra samhenginu. Þetta er mitt innlegg í loftslagsmál. 

Á sama tíma fagna ég því að lögð sé áhersla á umhverfismál því fólk á að velta því fyrir sér hvernig við getum verndað umhverfi okkar og náttúru – en það er ekki bara einn pólitískur rétttrúnaðarvagn sem menn geta hoppað upp á og að hann keyri menn í einhverja alsælu – PC-vagninn stefnir ekki endilega í rétta átt í umhverfismálum.“

Menn þurfa að læra heima
Það er eins með jafnlaunavottunina, sem Viðreisn setti mjög á oddinn í kosningabaráttunni, henni finnst að áður en menn leggja af stað í mjög íþyngjandi aðgerðir þurfi menn að vinna heimavinnu sína. Hvað jafnlaunavottunina varðar segist Sigríður treysta jafnréttisráðherra til verksins, þó hún efist um tilvist kynbundins launamunar. „Ég mun greiða atkvæði með öllum stjórnarfrumvörpum. Það kemur mönnum alltaf á óvart – en það þýðir samt ekki að ég hafi skipt um skoðun.“

Og hefur þú sjálf aldrei upplifað mismunun vegna kyns? „Ég hef aldrei upplifað mig þannig að ég hafi ekki fengið eitthvað sem mér bar, yfirhöfuð, alls ekki því ég er kona.“
En öfugt? Var gengið fram hjá Brynjari Níelssyni við ráðherraskipan? „Ég held að það geti ekki verið. Er ekki alltaf sagt að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo vondur við konur?“ segir Sigríður og hlær. „Ég held að mér hafi verið falið þetta embætti af því að mér var treyst til þess af forystu flokksins.“

Ólíkleg vinátta á þingi
Sigríður segir góðan anda innan ríkisstjórnarinnar, þó hún sé ekki hrifin af samsteypustjórnum.
„Draumaríkisstjórnin mín væri sú að hér væri minn flokkur bara við völd. En það er ekki raunsætt. Langflestir á Alþingi eru fínt fólk, þó við séum ekki alltaf sammála. Ég sat til dæmis við hlið Ögmundar Jónassonar á síðasta kjörtímabili og það fór vel á með okkur, þó hugmyndafræðilega sé langt á milli okkar. Menn héldu að við hefðum ekki gaman af þessu sjálf, en við náðum oft að mynda með okkur furðulegustu bandalög. Svo vorum við líka oftast bara sammála um að vera ósammála. Það er líka í lagi.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.