Nýr forstjóri Hörpu mun fá 1,3 milljónir króna í mánaðarlaun samkvæmt nýbirtum úrskurði kjararáðs. Mun nýr forstjóri taka við störfum af Halldóri Guðmundssyni þann 1. mars næstkomandi en ekki hefur verið ráðið í starfið.
Kjararáð birti úrskurð um laun forstjóra Hörpu í dag en samkvæmt lögum um kjararáð skal kjararáð ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra félaga sem eru að meirihluta í eigu ríkissjóðs og dótturfélaga þeirra. Ríkissjóður á 54 prósenta hlut í Hörpu.
Í bréfi stjórnar Hörpu til kjararáðs frá 9. ágúst síðastliðnum segir að eðli starfs forstjórans krefjist mikillar viðveru utan hefðbundins vinnutíma og mikilvægt að hann sé sýnilegur á þeim fjölmörgu atburðum sem þar fari fram. Þá kemur einnig fram í bréfinu að forstjórinn sitji í stjórn dótturfélaga Hörpu auk Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík og þiggi ekki laun fyrir þau störf.
Kjararáð segir í úrskurði sínum að það hafi ekki áður tekið ákvörðun um laun forstjóra Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. Við ákvörðun launa hans hefur verið höfð hliðsjón af umfangi og verkefnum félagsins.
Mánaðarlaun nýs forstjóra Hörpu verða 1,3 milljónir
