Viðskipti innlent

HB Grandi og Brim vilja ekki Gadus

Haraldur Guðmundsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims.
Sjávarútvegsfyrirtækin HB Grandi og Brim ætla ekki að bjóða í Gadus, dótturfélag Icelandic Group í Belgíu, sem nú er til sölu. Þetta staðfesta Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, og Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, í samtali við breska fjölmiðilinn Under­current News.

Icelandic Group, sem er í eigu Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), auglýsti Gadus til sölu þann 10. janúar en fyrirtækið sérhæfir sig í vinnslu og sölu á ferskum og kældum sjávarafurðum, einkum þorski og laxi. Talið er að eignin verði mun eftirsóttari en önnur fyrrverandi dótturfélög Icelandic Group sem fyrirtækið seldi í fyrra og 2015. Söluferlið er í höndum Íslandsbanka.

Brim keypti starfsemi Icelandic Group í Asíu í desember 2015. Guðmundur Kristjánsson segir í samtali við Undercurrent News að fyrirtækið hafi ekki áhuga á Gadus.

„Brim mun ekki taka þátt. Við erum einungis í verkfalli núna," segir Guðmundur og vísar í verkfallsaðgerðir sjómanna hér á landi.

Gadus selur um 7.000 tonn af afurðum árlega og námu tekjur árið 2016 um ellefu milljörðum króna.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.  

 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.