Viðskipti innlent

Íbúðaverð hækkaði um 15 prósent 2016

Hörður Ægisson skrifar
Fasteignaverð hefur ekki hækkað jafn mikið síðan 2007.
Fasteignaverð hefur ekki hækkað jafn mikið síðan 2007. vísir/anton brink
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um fimmtán prósent á árinu 2016, samkvæmt nýjum tölum frá Þjóðskrá. Hækkunin í desembermánuði nam 1,5 prósentum. Í umfjöllun Hagsjár Landsbankans um þróun fasteignaverðs kemur fram að fara þurfi allt aftur til ársins 2007 til að sjá álíka hækkanir á húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu og orðið hafa á síðustu tólf mánuðum.

Raunverð fasteigna hefur sömuleiðis hækkað mun meira en oft áður þar sem verðbólga hefur verið lág og stöðug síðustu misseri. „Vísitala neysluverðs án húsnæðis í desember var um 0,8 prósent lægri en nóvember 2015, þannig að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem raunverðshækkun og rúmlega það,“ segir í Hagsjá bankans. Raunverð fasteigna hækkaði um 11,2 prósent á árinu 2016.

Hagfræðideild Landsbankans bendir á að mikilvæg ástæða mikilla verðhækkana fasteigna, einkum fjölbýlis, sé að framboð húsnæðis hefur verið minna en markaðurinn getur tekið við. Nú hilli hins vegar undir að nýjum íbúðum fjölgi á næstu misserum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×