Einkahlutafélagið CFR, sem heldur utan um rekstur Crossfit Reykjavík, hagnaðist um 11,7 milljónir króna árið 2015. Þetta kemur fram í nýjum ársreikningi félagsins en reksturinn skilaði 616 þúsunda króna tapi árið 2014.
CFR átti í lok 2015 eignir upp á 44,5 milljónir króna en skuldir félagsins námu þá 30,7 milljónum. Eigið fé þess var því jákvætt um 13,8 milljónir. Hluthafar félagsins voru átta í lok ársins. Evert Víglundsson, yfirþjálfari hjá Crossfit Reykjavík og þjálfari úr sjónvarpsþáttunum Biggest Loser Ísland, átti 30 prósenta hlut líkt og félagið Hljómar ehf. Það er aftur í eigu Ívars Ísaks Guðjónssonar. Annie Mist Þórisdóttir, fyrrverandi heimsmeistari í crossfit, átti 25 prósent en hún bættist í eigendahóp líkamsræktarstöðvarinnar í janúar 2012. Aðrir hluthafar áttu minna en fjögur prósent hver.
Crossfit Reykjavík opnaði formlega í Skeifunni 8, þann 4. júlí 2010.
Crossfit Reykjavík hagnaðist um 11,7 milljónir
