Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi aðaleigandi Landsbankans, og Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi yfirmaður bankans í Lúxemborg, voru í dag sýknaðir af ákæru um að hafa blekkt yfir hundrað manns til að taka veðlán hjá bankanum. RÚV greindi fyrst frá.
Dómur í málinu var kveðinn upp í París í dag. Auk Björgólfs og Gunnars voru sjö aðrir einstaklingar ákærðir af rannsóknardómara í málinu og voru þeir allir sýknaðir. Rannsóknin hófst eftir að fjöldi viðskiptavina Landsbankans í Lúxemborg leitaði réttar síns vegna lána sem tekin voru hjá bankanum fyrir hrun. Þeir sögðu farir sínar ekki sléttar af innheimtu lánanna eftir hrun.
Hundruð fasteignaeiganda, þar á meðal söngvarinn frægi Enrico Macias, sökuðu Björgólf og félaga um að hafa svikið þá með flóknum viðskiptafléttum.
Fengu viðskiptavinirnir lán út á fullt veð í eignum sínum á þeim forsendum að þeir fengju aðeins fjórðung af lánunum en restin færi í fjárfestingarsjóð. Hagnaðurinn af fjárfestingarsjóðnum átti síðan að greiða upp lánið.
Í frétt Le Dauphine um sýknudóminn segir að honum verði mögulega áfrýjað.
Björgólfur og félagar sýknaðir í París

Tengdar fréttir

Vill þriggja ára fangelsisdóm yfir Björgólfi auk tug milljóna sektar
Réttað í máli Björgólfs og annarra vegna lánveitinga Landsbankans í Lúxemborg.