„Staðan er óbreytt og þessi markaður er enn lokaður. Það er búið að fara í gegnum vöruna og ekkert annað sem við getum gert en að bíða,“ segir Rolf Hákon Arnarson, framkvæmdastjóri Akraborgar.
Rússneska matvælastofnunin jók eftirlit með innflutningi á vörum Akraborgar um miðjan júlí síðastliðinn. Fréttablaðið greindi þá frá ákvörðuninni og að hún hefði að sögn stofnunarinnar verið tekin eftir að kadmíum fannst yfir leyfilegum mörkum í íslenskri þorsklifur frá fyrirtækinu. Akraborg mátti þá áfram flytja vörur inn en með því skilyrði að sýni væru tekin úr öllum sendingum. Samkvæmt tilkynningu á vef stofnunarinnar voru þrjú sýni tekin en fyrirtækið, sem er í eigu Lýsis, er stærsti framleiðandi niðursoðinnar þorsklifrar í heiminum.

„Það er búið að mæla þetta í viðurkenndum rannsóknarstofum af íslenska matvælaeftirlitinu. Við furðum okkur því á þessu,“ segir Rolf og bætir við að fyrirtækið bíði nú eftir frekari upplýsingum.
Alls eru sex fyrirtæki í sjávarútvegi á tímabundnum bannlista Rússanna. Fyrir utan Akraborg eru þar Búlandstindur á Djúpavogi, Fisk Seafood á Sauðárkróki, Frostfiskur, Loðnuvinnslan og afurðir af Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, fjölveiðiskipi Samherja. Hafa sum fyrirtækjanna ekki mátt flytja afurðir til landa tollabandalagsins í rúm tvö ár. Bannið leggst ofan á innflutningsbann Rússa á íslenskar sjávarafurðir sem tók gildi í ágúst 2015 en nær ekki til niðursoðinna vara líkt og þeirra sem Akraborg framleiðir og selur.
Sú ákvörðun að setja fyrirtækin á bannlista var rökstudd með vísun í auknar kröfur um sýnatökur og örverurannsóknir. Að auki eru þrír innlendir kjötframleiðendur á bannlistanum, Kaupfélag Skagfirðinga, Sláturfélag Suðurlands (SS) og Sláturhús KVH. Fyrirtækin hafa ekki mátt flytja kjötafurðir til landa tollabandalagsins síðan í febrúar 2015.