Snap Inc., eigandi samfélagsmiðilsins Snapchat, stefnir á skráningu á hlutabréfamarkað í mars á næsta ári, að því er segir í frétt Wall Street Journal.
Talið er að fyrirtækið verði metið á 25 milljarða dollara, 2.860 milljarða íslenskra króna, þegar það verður skráð á markað.
Forsvarsmenn Snapchat hafa greint fjárfestum sínum frá því að auglýsingatekjur af miðlinum muni nema 250 til 350 milljónum dollara á þessu ári. EMarketer telur að tekjur fyrirtækisins verði milljarður dollara á næsta ári. Ef það stenst yrði markaðsvirði félagsins 25 sinnum hærra en tekjur þess á ársgrundvelli.
Í maí var Snapchat metið á 18 til 22 milljarða dollara. Ef fyrirtækið fer á markað með virðið 25 milljarða dollara, væri um að ræða hæsta markaðsvirði við skráningu tæknifyrirtækis frá því að Alibaba var skráð á markað ári 2014.
Evan Spiegel, stofnandi Snapchat, er einungis 26 ára gamall. Árið 2013 hafnaði hann yfirtökutilboði Facebook sem nam 3 milljörðum dollara.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
