Innlent

Júlíus Vífill á eftirlaunasjóð sem skráður er í Panama

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Segir hann að  fyrirkomulag sjóðsins og aðrar upplýsingar liggi fyrir hjá skattayfirvöldum og að allar greiðslur úr honum séu skattskyldar á Íslandi.
Segir hann að fyrirkomulag sjóðsins og aðrar upplýsingar liggi fyrir hjá skattayfirvöldum og að allar greiðslur úr honum séu skattskyldar á Íslandi. Vísir / Vilhelm
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur greint frá því að hafa stofnað vörslusjóð sem skráður er í Mið-Ameríkuríkinu Panama.

Júlíus Vífill segir að sjóðurinn hafi verið stofnaður í svissneskum banka en að honum hafi verið ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Mið-Ameríkuríkinu Panama. Tilgangurinn hafi verið að mynda eigin eftirlaunasjóð en að sjóðurinn lúti svipuðu regluverki og sjálfseignarstofnun.

Mikið hefur verið rætt um aflandsfélög og eignarhald íslenskra stjórnmálamanna og annarra áhrifamanna í íslensku samfélagi eftir að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra greindi frá því að hún ætti erlent félag sem haldi utan um fjölskylduarf hennar.

Þá hefur komið fram að bæði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra Ólöf Nordal innanríkisráðherra hafi verið tengd aflandsfélögum. Vilhjálmur Þorsteinsson sagði einnig af sér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar eftir að hafa greint frá eignarhaldi sínu á aflandsfélögum.

Segist Júlíus Vífill ekki hafa haft neinar tekjur eða haft heimild til þess að ráðstafa fjármunum úr honum. Segir hann að ef greitt væri úr sjóðnum yrðu greiðslurnar skattskyldar á Íslandi líkt og gerist til dæmis með séreignarsparnaðarreikninga.

Að sögn Júlíusar Vífils liggja fyrirkomulag sjóðsins og aðrar upplýsingar fyrir hjá skattayfirvöldum.

Biðst hann velvirðingar á því að hafa ekki greint frá tilvist sjóðsins fyrr en nú en hann tekur fram að hann eigi ekki bankareikninga, félög, fasteignir eða aðrar eignir utan Íslands.

„Enda þótt þess sé ekki krafist að geta eftirlaunasjóðs í hagsmunagreiningu borgarfulltrúa tel ég, eftir á að hyggja, að betur hefði farið á því og biðst velvirðingar á að hafa ekki gert það,“ segir í yfirlýsingu frá Júlíusi Vífli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×