„Ég hugsa að þegar þetta var sett á á sínum tíma hafi enginn tekið þetta heildstætt og skoðað hvort við séum að uppfylla mannréttindaskuldbindingar,“ tekur hún fram.
Samkvæmt alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er aðili að, skuldbinda ríki sig til að gæta sérstaklega að viðkvæmum hópum og tryggja að allir geti lifað mannsæmandi lífi.

„Þeir landsmenn sem ekki hafa réttindi úr lífeyrissjóðum geta ekki lifað á lífeyrinum sem þeir fá frá hinu opinbera. Skerðingin „króna á móti krónu“ dæmir svo marga til að lifa við sömu lélegu kjörin þótt þeir hafi áunnið sér einhver lífeyrisréttindi eða aflað viðbótartekna. Hvort sem um er að ræða eldra fólk eða öryrkja þurfa menn lífeyri sem þeir geta lifað af,“ leggur Margrét áherslu á.
Valfrjáls bókun við fyrrgreindan samning gerir borgurum aðildarríkja kleift að kæra meint brot á samningnum til nefndarinnar sem starfar á grundvelli samningsins séu þeir ósáttir eftir að hafa reynt öll innlend réttarúrræði. Ekki er þó hægt að kæra meint brot til nefndarinnar hafi aðildarríki ekki fullgilt bókunina. Það hefur Ísland ekki gert. Að sögn Margrétar hafa Sameinuðu þjóðirnar mælst til þess að Ísland fullgildi bókunina.

Finnland er eina norræna ríkið sem hefur undirritað viðaukann. Hin norrænu ríkin hafa hvorki skrifað undir né fullgilt bókunina, að því er segir í skriflegu svari frá utanríkisráðuneytinu. Þar segir jafnframt að eingöngu 45 af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna hafi undirritað bókunina og 21 fullgilt hana.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2016