Viðskipti innlent

Saka hvorir aðra um að hindra samkeppni á matvörumarkaði

Ingvar Haraldsson skrifar
Sindri Sigurgeirsson er formaður Bændasamtakanna.
Sindri Sigurgeirsson er formaður Bændasamtakanna. vísir/stefán
Bændasamtökin og forsvarsmenn verslunar telja hvor um sig hinn aðilann standa í vegi fyrir samkeppni á matvörumarkaði.

Í skýrslu Bændasamtakanna um matvöruverð er fullyrt að lækkanir á sköttum og gjöldum auk styrkingar á gengi krónunnar hafi ekki skilað sér í lækkunum á vöruverði á dagvörumarkaði. Vísbendingar séu um að álagning innlendra birgja og smásöluverslana hafi hækkað á innflutningi.

Ólafur Stephensen
Er Samkeppniseftirlitið hvatt til að beita sér meira til að auka samkeppni á dagvörumarkaði. Stjórnvöld og fleiri þurfi að beita sér svo lækkanir á álögum og gjöldum skili sér til neytenda.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir skýrsluna með ólíkindum, í henni sé fjöldi rangfærslna og ósanninda.

„Að þetta sé þakklæti þessara forystumanna til verslunarinnar,“ segir Finnur. Fullyrðingar um háa álagningu dagvöruverslana séu rangar.

„Landbúnaðarvörur eru seldar hér með algjörri lámarksálagningu og það vita Bændasamtökin,“ segir Finnur.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, gagnrýnir einnig skýrsluna.

„Það er gripið í ýmis hálmstrá um að hátt matvælaverð á Íslandi sé öðru að kenna en skorti á samkeppni í íslenskum landbúnaði,“ segir Ólafur.

Finnur Árnason
„En eitt stærsta atriðið til að tryggja samkeppni á íslenskum matvörumarkaði í heild er að innlendir matvælaframleiðendur fái meiri erlenda samkeppni. Bændasamtökin hafa borið sig illa undan erlendri samkeppni í formi vöru í lægri tollum sem komið hefur inn á þennan markað,“ segir Ólafur.

Aö sögn Ólafs er samkeppni í innflutningi og heildsölu á matvöru svo mikil að fyrirtæki hafi ekki efni á að sleppa verðlækkunum þegar gengisstyrking eða lækkanir gjalda gefi tilefni til þess.

„Við erum algjörlega sammála því að það þurfi að vera hörð samkeppni á matvörumarkaði. Við teljum að hún sé mikil í innflutningi og á heildsölustiginu en hún mætti vissulega vera meiri og fleiri aðilum til að dreifa í smásölunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×