Viðskipti innlent

Fasteignaverð ekki hækkað eins mikið frá árinu 2007

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um alls 14,8 prósent síðustu tólf mánuði.
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um alls 14,8 prósent síðustu tólf mánuði. vísir/vilhelm
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um alls 14,8 prósent síðustu tólf mánuði. Um er að ræða miklar hækkanir og fara þarf allt til ársins 2007 til að sjá álíka tölur.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans. Þar segir að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 1,4 prósent milli mánaða í nóvember. Þar af hækkaði fjölbýli um 1,9 prósent og sérbýli lækkaði um 0,2 prósent. Fjölbýli hefur hækkað um 15,6 prósent síðustu tólf mánuði, sérbýli um 13 prósent og heildarhækkun sem fyrr segir 14,8 prósent.

„Verðbólga hefur verið lág og stöðug síðustu misseri og því hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella. Vísitala neysluverðs án húsnæðis í nóvember var einungis um 0,4% hærri en í nóvember 2015, þannig að allar nær nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem raunverðshækkun,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanum.

Þá kemur fram að viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið mikinn kipp upp á við í nóvember. Það eigi einkum við um viðskipti með fjölbýli sem hafi aukist stöðugt frá því í júní. Aukning viðskipta með fjölbýli milli október og nóvember var veruleg í Reykjavík og hefur ekki verið meiri mjög lengi.  

Meðalviðskipti með fasteignir á mánuði, það sem af er árinu, hafa verið töluvert meiri en á öllu árinu 2015 og gildir það bæði um fjölbýli og sérbýli. Hagfræðideild Landsbankans telur þó, þrátt fyrir að viðskipti séu blómleg, að skortur sé á framboði íbúða á markaðnum með fjölbýli og að sú staða sé einn þeirra þátta sem ýti verði upp á við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×