Körfubolti

Gríska fríkið setti persónulegt stigamet í nótt | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo, leikmaður Milwaukee Bucks í NBA-deildinni í körfubolta, setti persónulegt stigamet þegar hann skoraði 39 stig í sigri á Washington Wizards, 123-96, í nótt.

Antetokounmpo er 22 ára Grikki sem er á sínu fjórða tímabili í NBA. Gríska fríkið, eins og Antetokounmpo er stundum kallaður, er 2,11 metrar á hæð og með endalaust langar hendur.

Auk þess að vera aðalmaðurinn hjá Milwaukee er Antetokounmpo í lykilhlutverki í gríska landsliðinu sem er með því íslenska í riðli á EM 2017. Það er ljóst að strákanna okkar bíður erfitt verkefni að stöðva Antetokounmpo næsta haust.

Antetokounmpo skoraði sem áður sagði 39 stig í leiknum í nótt, þrátt fyrir að leika aðeins í 33 mínútur. Hann nýtti 12 af 19 skotum sínum í teignum og kláraði 15 af 17 vítum sínum. Þá tók Antetokounmpo átta fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Í spilaranum hér að ofan má sjá myndband með helstu tilþrifum Antetokounmpo frá því í nótt.

Antetokounmpo leiðir Milwaukee í öllum helstu tölfræðiþáttum á tímabilinu. Hann er með 23,4 stig, 9,0 fráköst, 5,8 stoðsendingar, 2,1 stolinn bolta og 1,9 varið skot að meðaltali í leik í vetur.

Milwaukee er í 7. sæti Austurdeildarinnar. Liðið hefur unnið 14 leiki í vetur og tapað fjórtán.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×