Körfubolti

Fjórtánda þrenna Westbrooks kom í sigri á Boston | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook átti frábæran leik gegn Boston.
Russell Westbrook átti frábæran leik gegn Boston. vísir/afp
Fjórtán leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Russell Westbrook fór hamförum þegar Oklahoma City Thunder bar sigurorð af Boston Celtics á útivelli, 112-117.

Westbrook var stigahæstur á vellinum með 45 stig en hann tók einnig 11 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Þetta var þriðji leikurinn í röð þar sem Westbrook skorar 40 stig eða meira og fjórtándi leikurinn í vetur þar sem hann er með þrefalda tvennu.

Isiah Thomas var atkvæðamestur í liði Boston með 34 stig og 10 stoðsendingar.

Golden State Warriors vann sinn sjöunda leik í röð þegar liðið sótti Detroit Pistons heim. Lokatölur 113-119, Golden State í vil.

Kevin Durant lenti í villuvandræðum en skoraði samt 32 stig fyrir Golden State sem er á toppnum í Vesturdeildinni. Stephen Curry skoraði 25 stig og gaf átta stoðsendingar og þá kom JaVale McGee með mikilvægt framlag af bekknum. Miðherjinn skoraði 15 stig á aðeins níu mínútum.

Cleveland Cavaliers átti ekki í miklum vandræðum með að leggja Brooklyn Nets að velli. Cleveland var 41 stigi yfir fyrir lokafjórðunginn, 98-57, en Brooklyn bjargaði andlitinu með því að vinna hann 42-21. Á endanum munaði 20 stigum á liðunum, 119-99.

Sjö leikmenn Cleveland skoruðu 11 stig eða meira í leiknum. LeBron James var þeirra stigahæstur með 19 stig.

Úrslitin í nótt:

Boston 112-117 Oklahoma

Detroit 113-119 Golden State

Cleveland 119-99 Brooklyn

Charlotte 103-91 Chicago

Orlando 109-90 LA Lakers

Milwaukee 123-96 Washington

Memphis 115-109 Houston

New Orleans 91-87 Miami

Minnesota 105-109 Sacramento

Denver 108-109 Atlanta

Utah 98-104 Toronto

Phoenix 123-116 Philadelphia

Portland 90-110 San Antonio

LA Clippers 88-90 Dallas

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×