Viðskipti innlent

Fyrsta útskipun á kísilmálmi í Helguvík

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þetta er fyrsti kísilmálmurinn sem framleiddur er á Íslandi.
Þetta er fyrsti kísilmálmurinn sem framleiddur er á Íslandi. Mynd/Aðsend
Fyrsti kísilmálmurinn, sem framleiddur er í nýrri verksmiðju United Silicon í Helguvík, var fluttur með Lagarfossi frá Helguvíkurhöfn síðdegis í gær. Samtals tólf gámar með rúmlega 300 tonn af kísilmálmi voru lestaðir um borð í Lagarfoss sem sigldi síðan af stað með farminn á leið til Rotterdam.

„Þetta eru stór og mikil tímamót fyrir okkur enda fyrsti kísilmálmurinn sem framleiddur er á Íslandi. Kísill framleiddur hjá United Silicon á Íslandi er þar með á leið til viðskiptavina félagsins í Evrópu. Um helmingurinn af öllum kísli, sem við munum framleiða, fer áfram til framleiðslu á polysilicon sem er ofurhreinn kísilmálmur sem einungis er notaður í sólarrafhlöður. Þær eru meðal annars settar upp á húsþök víða um heim og framleiða viðvarandi græna orku. Þannig er orðið að veruleika eitt aðalmarkmið okkar, sem er að flytja út græna orku Íslands til framleiðslu á enn grænni orku erlendis, ” segir Magnús Garðarsson, stjórnarmaður hjá United Silicon.

Þrjátíu og tveggja megavatta ljósbogaofn, sem félagið hefur gefið nafnið Ísabella, framleiðir kísilmálminn við 1900 gráðu hita við efnabreytingu af kvartsgrjóti. Í fyrsta áfanga verða framleidd 22.900 tonn í ofninum. United Silcion hefur fengið starfsleyfi fyrir alls fjórum ofnum og er verksmiðjan hönnuð með þessa stækkun í huga. Miðað við fjóra ofna verður framleiðslugetan um 90.000 tonn á ári. 


Tengdar fréttir

Fyrsta kísilmálmverksmiðja á Íslandi gangsett í dag

Kísilmálmverksmiðja United Silicon í Helguvík var gangsett í dag en en hún er fyrsta kísilmálmsverksmiðjan á Íslandi. Þrjú hundruð starfsmenn unnu í verksmiðjunni á byggingartíma hennar en í dag starfa 62 við kísilframleiðsluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×