Handbolti

Guðlaugur: Vildi vinna stærra

Ingvi Þór Sæmundsson í Valshöllinni skrifar
Guðlaugur er bjartsýnn á að sjö marka forskot dugi Valsmönnum til að fara áfram.
Guðlaugur er bjartsýnn á að sjö marka forskot dugi Valsmönnum til að fara áfram. mynd/valur
Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfara Vals, var að vonum glaður með sigurinn á Haslum í dag. Hann viðurkenndi þó hann hefði viljað hafa hann stærri.

„Ég er virkilega ánægður með sigurinn en eins og leikurinn spilaðist hefði ég viljað vinna hann stærra,“ sagði Guðlaugur í samtali við Vísi eftir leikinn sem endaði með sjö marka sigri Vals, 31-24.

„Markvörðurinn [Trond Tjemsland] var mjög góður og svo skutum við líka framhjá og í stangirnar úr dauðafærum þar sem við tættum vörnina þeirra í sundur. Það er mjög jákvætt að vinna sjö marka sigur en við hefðum getað unnið þetta stærra. Þetta er bara fyrri hálfleikur,“ sagði Guðlaugur en seinni leikurinn fer fram í Noregi eftir viku.

Guðlaugur segir að norska liðið hafi ekki komið sér á óvart í leiknum í dag, nema þegar þeir skiptu yfir í framliggjandi vörn á lokamínútunum.

„Við vorum búnir að horfa á þá og greina vel. Það var lítið sem kom okkur á óvart. Hann var sterkari en við reiknuðum með þessi, þessi stóri vinstra megin [Eirik Köpp],“ sagði Guðlaugur og bætti því að Valsmenn þurfi að nýta tímann í næstu viku til að fara yfir sóknarleikinn gegn framliggjandi vörn Haslum.

„Við þurfum að undirbúa okkur fyrir það og vera tilbúnir fyrir það ef þeir koma framarlega. Við hikstuðum þegar þeir spiluðu þannig, við vorum ekki búnir að undirbúa okkur fyrir það í þessum leik,“ sagði Guðlaugur að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×