Handbolti

Týndar töskur og hoss á sveitavegum í Úkraínu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Strákarnir á leið í göngutúr í Sumy í dag.
Strákarnir á leið í göngutúr í Sumy í dag. mynd/einar þorvarðarson
„Þetta ferðalag var mjög áhugavert og svo sannarlega engin skemmtun,“ segir Geir Sveinsson landsliðsþjálfari en íslenska handboltalandsliðið er komið til Sumy í Úkraínu eftir langt og strangt ferðalag.

„Að þurfa að keyra fimm klukkutíma eftir að hafa farið í tvær flugvélar er ekki beint ákjósanlegt. Í sjálfu sér á þetta ekkert að vera leyfilegt að mínu áliti. Auðvitað eiga leikir að vera spilaðir nálægt alþjóðaflugvöllum.“

Það var ekki bara að rútuferðin væri löng heldur var stór hluti leiðarinnar á sveitavegum þar sem liðið svo gott sem hossaðist tl Sumy.

„Þær voru ansi margar holurnar á þessum sveitavegum þannig að menn náðu nú ekki beint mikilli hvíld í rútunni,“ segir Geir en fleira gekk ekki vel í þessu ferðalagi.

„Það tafði okkur um einn og hálfan tíma að það vantaði hluta af farangrinum er við komum til Úkraínu. Þrír leikmenn fengu ekki töskurnar sínar og svo vantar eitthvað af búningum og boltum líka. Það er bagalegt en búið að hafa upp á þessu og við fáum töskurnar síðar í dag.“

Leikur Úkraínu og Íslands hefst klukkan 16.00 á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×