Viðskipti innlent

Erlendir ferðamenn eyða sem aldrei fyrr hér á landi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Í ágúst nam erlend greiðslukortavelta 30,6 milljörðum króna samanborið við 22,2 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða tæplega 38 prósent aukningu frá ágúst í fyrra. Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt tæpa 162 milljarða með kortum sínum en til samanburðar var erlend greiðslukortavelta allt árið í fyrra 154,4 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Tæpir 6,5 milljarðar króna fóru um posa gististaða í ágúst en upphæðin nú er 32,3 prósent hærri en í ágúst 2015 þegar erlendir ferðamenn greiddu 4,9 milljarða króna til gististaða með kortum sínum. Erlend greiðslukortavelta til gististaða er jafnframt 4,8 prósent hærri en í júlí síðastliðnum og hefur því aldrei verið meiri í einum mánuði.

Enn er mikill vöxtur í farþegaflutningum með flugi en erlend greiðslukortavelta til flugfélaga jókst um 128 prósent frá fyrra ári. Erlendir aðilar greiddu í ágústmánuði 3,1 milljarða fyrir flugferðir samanborið við tæpan 1,4 milljarð í fyrra. Ekki fer öll starfsemi innlendra flugfélaga fram á Íslandi og því stafar hluti greiðslukortaveltu þeirra af ferðalögum til annarra áfangastaða en Íslands.

Um 57 prósent aukning varð á milli ára í greiðslukortaveltu í flokknum ýmis ferðaþjónusta en flokkurinn inniheldur meðal annars ferðaskrifstofur og ýmsar skipulagðar ferðir ferðaþjónustufyrirtækja. Erlendir ferðamenn greiddu 3,5 milljarða á veitingahúsum í ágúst í ár eða 29,7 prósent meira en í ágúst í fyrra og þá jókst greiðslukortavelta í verslun um 23,2 prósent frá fyrra ári og var í ár 4,4 milljarðar. Í ágúst greiddu erlendir ferðamenn tæpar 900 milljónir fyrir menningar- afþreyingar og tómstundastarfsemi eða 47,2 prósent meira en í sama mánuði árið 2015.

Í júlí komu 241.559 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 27,5 prósent fleiri en í sama mánuði í fyrra og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×