Viðskipti innlent

Forstjóri MS hafnar fullyrðingum framkvæmdastjóra Örnu: Gætum þess að veita nýjum framleiðendum svigrúm

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ari Edwald forstjóri MS.
Ari Edwald forstjóri MS. vísir
Ari Edwald, forstjóri MS, hafnar fullyrðingum Hálfdánar Óskarssonar, framkvæmdastjóra Örnu, þess efnis að MS geti gert út af við Örnu með því að hefja framleiðslu á laktósafríum vörum. Segir Ari að, þvert á móti, hafi MS gefið Örnu svigrúm til þess að þróa sínar vörur með því að fara ekki inn á viðkomandi svið.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forstjóra MS þar sem hann svarar fullyrðingum Hálfdánar sem var í viðtali við Markaðinn í Fréttablaðinu í vikunni. Þar sagði Hálfdán að MS gæti undirboðið Örnu og þar með „drepið okkur á nokkrum vikum,“ líkt og hann komst að orði í viðtalinu.

Sjá einnig: Framkvæmdastjóri Örnu: MS gæti drepið okkur á nokkrum vikum standi neytendur ekki með okkur

Í yfirlýsingu Ari segir að MS hafi hafni þessum fullyrðingum alfarið og að MS fagni nýjum framleiðendum í mjólkuriðnaði.

„Sú gróska sem á sér stað í greininni er mikið gleðiefni og sem stærsti aðilinn á markaðnum höfum við hjá MS einmitt gætt þess að gefa nýjum framleiðendum svigrúm þegar komið er fram með nýjar vörur og vöruflokka með því að fara ekki sjálf inn á viðkomandi svið.“

Segir MS að undirboð á vörum sem MS verðleggur sjálft sé lögbrot þar sem MS sé markaðsráðandi fyrirtæki.

Hálfdán sagði í viðtalinu jafnframt að MS hafi komið með laktósafría mjólk á markaðinn þegar félagið hafi frétt af því að Arna ætlaði sér að koma með slíka vöru á markaðinn. Ari segir þetta ekki rétt, MS hafi verið með slíka vöru í þróun í nokkurn tíma áður en að Arna hóf starfsemi.

Eftir að Arna hafi hafið rekstur og í ljós hafi komið að Arna ætlaði sér að þróa fleiri tegundir af laktósafríum vörum hafi MS ákveðið að fara ekki í frekari þróun á laktósafríum vörum „einmitt til að nýr og smærri framleiðandi hefði þarna svigrúm til nýsköpunar á markaði“ líkt og segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×