Matur

Hollar kræsingar í nestispakkann

Elín Albertsdóttir skrifar
Rósa Guðbjartsdóttir með hafrastykki með fræjum.
Rósa Guðbjartsdóttir með hafrastykki með fræjum. MYND/HANNA

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og höfundur nokkurra matreiðslubóka, er ekki óvön því að útbúa nesti, jafnt fyrir börnin í skóla og íþróttir, í vinnuna eða í lautarferð fjölskyldunnar.

Rósa hugar að hollustu matvæla þegar hún finnur til nesti. „Við njótum þess að fara í sumarbústaðinn okkar en frá honum förum við oft í styttri göngur. Þá er mjög skemmtilegt að setjast niður og borða hollt og gott nesti. Ég er hins vegar ekki útilegugarpur,“ segir Rósa.

„Ef fólk fer í göngur úti í náttúrunni er nauðsynlegt að hafa eitthvað góðgæti í bakpokanum. Orkustykki eru frábær í hjóla- eða fjallaferð. Þegar maður hreyfir sig mikið er nauðsynlegt að fá góða orku. Þetta orkustykki sem ég gef uppskrift að er til dæmis mjög góð fyrir blóðsykurinn,“ segir hún.

Rósa gaf út bók í fyrra með súpuuppskriftum sem varð mjög vinsæl. Hún segist sífellt vera að útbúa nýjar uppskriftir.

„Hollur biti hefur verið sérstakt áhugamál hjá mér undanfarið því ég er alltaf að huga að nesti fyrir börnin í skólann. Maður reynir að draga úr neyslu á fæðu sem er uppfull af aukefnum. Með því að útbúa þetta sjálf veit ég hvað næringin inniheldur. Sjálf fer ég með nesti í vinnuna og vil hafa það handhægt en orkuríkt. Eggjamúffurnar eru æðislegar í útilegu eða í vinnuna. Þær eru frábærar, jafnt kaldar sem heitar. Krökkum finnst þær mjög ljúffengar,“ segir Rósa og hér koma glæsilegar uppskriftir.

Salthnetuæði. Tilvalið í ferðalagið, jafnt fyrir börn og fullorðna. Hægt að hafa í bakpokanum í fjallgöngu eða borða við sjónvarpið.

Salthnetuæði

Æðislegt yfir góðri mynd í sjónvarpinu eða til að hafa með í útileguna til að narta í.

14 stk. döðlur

2½ dl hafraflögur

2 msk. hlynsíróp

2 msk. möndlumjólk

5 msk. hnetu- eða möndlusmjör

2 dl salthnetur og ½ dl til að strá yfir

súkkulaðihjúpur

2 dl kakó

4-5 msk. hlynsíróp, að smekk

1½ dl kókosolía, fljótandi

Aðferð:

1. Maukið döðlur í matvinnsluvél.

2. Bætið hafraflögum, hlynsírópi, möndlumjólk og hnetu- eða möndlusmjöri saman við.

3. Blandið loks salthnetum saman við en best er að hneturnar saxist aðeins lítillega því gott er að finna vel fyrir þeim þegar bitið er í góðgætið.

4. Þrýstið deiginu í lítið form, gjarnan klætt bökunarpappír. Þjappið því vel í mótið en gott er að nota bökunarpappír við verkið.

5. Hrærið kakódufti, hlynsírópi og kókosolíu vel saman í lítilli skál.

6. Hellið súkkulaðiblöndunni yfir deigið í forminu, saxið salthnetur og stráið yfir.

7. Kælið í a.m.k. 2 klst., skerið í bita og njótið.

Geymið í kæli.Hafrastykki með fræjum

12 stk. döðlur, mjúkar

4 dl hafraflögur

2 msk. hnetu- eða möndlusmjör

2 msk. hlynsíróp eða hunang

2 tsk. vanilludropar

2 dl fræ að eigin vali, gjarnan blanda tegunda

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 180 gráður.

2. Maukið döðlur og haframjöl saman í matvinnsluvél þar til verður að þéttri blöndu.

3. Hrærið saman í lítilli skál hnetusmjöri, hlynsírópi og vanilludropum. Blandið vel saman við döðlu- og haframjölsblönduna.

4.  Bætið síðan fræjum saman við.

5. Setjið deigið í form sem klætt hefur verið bökunarpappír.

l Þrýstið deiginu þétt niður með höndunum. Best er að nota bökunarpappír til að þjappa og jafna deiginu út.

6. Bakið í 10 mínútur.

7. Látið kólna, skerið í bita og njótið.

Eggjamúffa er holl og saðsöm. Frábær í útileguna eða sem nesti fyrir börnin.

Eggjamúffur (10-12 stk.)

Litlar eggjamúffur eru æðislegar í nesti og ljúffengar sem biti milli mála, jafnt kaldar sem hitaðar upp. Sniðugt er að nota í þær alls kyns afganga af grænmeti, t.d. lauk, tómata, paprikur, kúrbít og grænt salat.

Frábær leið til að koma í veg fyrir matarsóun. Múffurnar geymast vel í þéttu íláti í kæli í 2-3 daga. Eggjabökur og múffur eru góðar einar sér en einnig með ljúffengri kaldri sósu og fersku salati.

7-8 egg (eftir stærð)

1 tsk. ólífuolía

2 hvítlauksrif, smátt söxuð

2 vorlaukar, smátt saxaðir

1 tómatur, smátt saxaður

1 handfylli spínat, saxað

½ dl fersk, söxuð basilíka eða 1 msk. þurrkuð

salt og grófmalaður pipar

½ dl rifinn ostur

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 180 gráður.

2.  Hitið ólífuolíu á lítilli pönnu og mýkið vorlauk, hvítlauk og tómata við vægan hita í 1-2 mínútur.

3. Takið af hitanum.

4. Hrærið egg upp með gaffli í skál, saltið og piprið að smekk.

5. Bætið spínati, basilíku og osti saman við og loks grænmetisblöndunni af pönnunni.

6. Smyrjið múffubakkaform eða notið silíkonmúffuform.

7. Skiptið eggjahrærunni jafnt í formin.

Bakið í 20-25 mínútur eða þar til múffurnar eru orðnar gullinbrúnar og eggin fullelduð
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.