Viðskipti innlent

Hlutabréf í Icelandair hríðfalla

Sæunn Gísladóttir skrifar
Icelandair Group kynnti afkomu annars ársfjórðungs í gær.
Icelandair Group kynnti afkomu annars ársfjórðungs í gær. Vísir/Vilhelm
Gengi hlutabréfa í Icelandair Group hafa lækkað um tæplega níu prósent það sem af er degi í 602 milljón króna viðskiptum. Þetta gerist í kjölfar þess að Icelandair Group kynnti afkomu annars ársfjórðungs eftir lokun markaða í gær og afkomuspá Icelandair Group var færð niður vegna óvissu á mörkuðum.

Fram kemur í tilkynningu að afkoman hefur aldrei verið betra á öðrum ársfjórðungi. EBITDA hjá Icelandair Group nam 52,4 milljónum dollara, jafnvirði 6,4 milljarða íslenskra króna, og hækkaði milli ára. Eiginfjárhlutfall var 39 prósent í júní. Forsvarsmenn Icelandair Group segja horfur góðar fyrir árið, þrátt fyrir áhrif ytri þátta.

Farþegum fjölgaði um átján prósent milli ára í millilendaflugi, samanborið við annan ársfjórðung 2015. Heildartekjur jukust um þrettán prósent. Hagnaður eftir skatta var 26,2 milljónir dollar, jafnvirði 3,2 milljarða íslenskra króna, og eykst um 17 prósent milli ára.

Fram kemur í uppgjörinu að erfiðari rekstrarskilyrði flugfélaga spili inn á seinni hluta ársins. Hryðjuverk í Evrópu og niðurstaða atkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa skapað óvissu á mörkuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×