Viðskipti innlent

Áætlað að íbúum Húsavíkur fjölgi um allt að 400 manns

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ráðamenn Norðurþings sjá fram á að reisa þurfi 120 nýjar íbúðir á Húsavík á næstu árum. Þeir gera ráð fyrir að íbúum fjölgi um tvö- til fjögurhundruð vegna kísilmálmverksmiðjunnar á Bakka. Þetta kom fram í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér að ofan. 

Fyrirtækið PCC er þegar byrjað að auglýsa eftir starfsmönnum en 120 varanleg störf skapast í verksmiðjunni. Ráðamenn á Húsavík sjá fram á að þar fjölgi fólki. 

„Við höfum nefnt tvö- til fjögurhundruð. En auðvitað eru margir óvissuþættir í þessu. En svona tvöhundruð plús er mjög líklegt að verði raunveruleikinn,” segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Öllum þessum umsvifum fylgja vaxtarverkir, sumir myndu segja jákvæðir. Á Húsavík þarf nefnilega að fara að byggja íbúðir, og það heilan helling. 

Í ljósi reynslunnar frá Austfjörðum vilja menn hafa vaðið fyrir neðan sig og hefur sveitarfélagið látið kortleggja stöðuna á húsnæðismarkaði. 

„Við reiknum með að það þurfi einar 120 íbúðir á næstu árum til að mæta þessari þörf,” segir sveitarstjórinn.

Stærsta hverfið rís væntanlega á svæði syðst í bænum en þar áformar fasteignafélag í eigu PCC að reisa 40 íbúðir til að létta sem fyrst á mesta þrýstingnum.

Frá Bakka. Búist er við að starfsmannafjöldi vegna framkvæmdanna á Húsavikursvæðinu fari upp í 600 manns í haust.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
„Auðvitað er líka ánægja að sjá að fasteignaverð er að rísa hér og hefur hækkað töluvert á þessu ári. Þannig að við erum bara bjartsýn á það að við komum þessu heim og saman,” segir Kristján Þór. 

En það er líka bullandi þensla á vinnumarkaði. 

„Það er mikil eftirspurn eftir fólki núna. Það eru atvinnuauglýsingar í öllum miðlum. Unga fólkið okkar getur fengið vinnu hér út um allt í verslun og ferðaþjónustu. Þau eru eðlilega ekki að vinna í framkvæmdunum sjálf kannski en það sem fylgir þessu er svo mikið að hér geta allir fengið vinnu sem þess óska,” segir Snæbjörn Sigurðarson, verkefnisstjóri hjá Norðurþingi. 

Snæbjörn Sigurðarson, verkefnisstjóri hjá Norðurþingi.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
„Auðvitað er bara gríðarlega ánægjulegt að takast á við þessar áskoranir sem eru framundan. Þær eru margar stórar en sveitarfélagið er öflugt. Það er gríðarlega góður mannauður hér, bæði hjá sveitarfélaginu og hér í sveitarfélaginu til þess að takast á við þetta.

Og við erum búin að byggja upp ákveðna reynslu núna með því að koma þessu verkefni á og erum auðvitað líka að horfa til framtíðar í því að byggja áfram upp og nýta fleiri tækifæri sem af þessari uppbyggingu skapast,” segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings.

Stórar vinnubúðir eru komnar upp á Bakka.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×