Viðskipti innlent

Smjörklípa aldarinnar

Skjóðan skrifar
Panama-skjölin komu fram í sviðsljósið með miklum hvelli. Forsætisráðherra neyddist til að segja af sér embætti. Einhvern veginn hefur tveimur öðrum ráðherrum, sem tengdust Panama-félögum, tekist að sitja áfram í sínum stólum, sennilega mest fyrir þá sök að hafa ekki sýnt af sér þá furðuframkomu sem fyrrverandi forsætisráðherra sýndi. Ekkert hefur heldur fram komið sem bendlar fjármála- og innanríkisráðherra eða maka þeirra við kröfuhafa í gömlu bankana.

Tveir lífeyrissjóðastjórar máttu yfirgefa sviðið vegna Panama-félaga. Einn borgarfulltrúi sagði af sér og gjaldkeri stjórnmálaflokks, sem raunar virðist ekki hafa verið í Panama-skjölunum heldur átt sín félög annars staðar. Nokkrir útrásarvíkingar reyndust vera með Panama-félög en engar nýjar fréttir voru í því, nema þá að furðu vekur að ekki skuli fleiri þekktir útrásarvíkingar vera þarna á blaði.

Boðað var að flett yrði ofan af ­aflandsfélögum fyrirtækja og einstaklinga úr íslenskum sjávarútvegi. Leið og beið og eftirvæntingin óx. Þær litlu upplýsingar sem fram komu virtust óspennandi.

Því næst var beðið eftir 9. maí. Þá átti að opna lungann af Panamaskjölunum fyrir allan almenning á netinu. Þar hlyti eitthvað bitastætt að koma fram.

Í millitíðinni komst forseti Íslands að þeirri niðurstöðu að óvissan í íslenskum stjórnmálum væri svo þrúgandi að hann yrði að fórna sér og bjóða sig fram til að gegna embættinu enn eitt kjörtímabilið. Á útlendri sjónvarpsstöð var hann spurður hvort hann, eiginkona hans og fjölskylda tengdust aflandsfélögum í skattaskjólum. Hann sagði nei og aftur nei og svo aftur og aftur. Hið gagnstæða kom í ljós. Fylgi forsetans hrundi dagana fram til 9. maí. Sunnudaginn 8. maí mætti síðan Davíð Oddsson á Bylgjuna og lýsti yfir framboði sínu til forseta.

Flestum var ljóst að Davíð ætti ekki minnstu möguleika á að ná kjöri. Undanfarin ár hefur hann í boði stórútgerðarinnar hamast við að endurskrifa söguna sér í hag á síðum Morgunblaðsins án merkjanlegs árangurs.

Framboð hans þjónar hins vegar tvíþættum tilgangi. Forsetinn með tengslin við Panama-félög gat dregið sig í hlé og umræðan hefur snúist um framboð Davíðs og túlkun hans á ferli þess frambjóðanda sem hefur yfirburðafylgi í skoðanakönnunum.

Panama-skjölin hafa ekki verið rædd frá því Davíð bauð sig fram. Framboð hans er smjörklípa aldarinnar. Kannski hugsaði hann þetta ekki að öllu leyti sem smjörklípu, Verið getur að hann hafi haldið að hann ætti séns. Bakhjarlar hans vita hins vegar hvað þeir syngja. Það er kaldhæðnislegt að höfundur smjörklípunnar í íslenskum stjórnmálum skuli enda feril sinn sem ein allsherjar smjörklípa fyrir íslenska Panama-greifa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×