Eftir nýfallinn hæstaréttardóm blasir við að minnstu flugbrautinni verði lokað, og að stórt svæði í Skerjafirði verði lagt undir íbúðabyggð. Ómar hefur flogið í hálfa öld og er sá núlifandi flugmaður sem sennilega hefur oftast lent á Reykjavíkurflugvelli. Honum líst ekkert á hvert stefnir.
„Það er alveg afleitt að vera að eyðileggja svona gott mannvirki, sem á mikla framtíðarmöguleika. Vegna þess að ef það verður ákveðið að þetta mannvirki standi þá mun sogast hér að hátækniiðnaður í sambandi við flug og ferðamennsku. En eins og er þá hamlar þessi óvissa öllu sem hér er að gerast,” segir Ómar.
Hann hefur áður bent á að svæðið við Skerjafjörð geti verið lykillinn að málamiðlun með tveggja brauta flugvelli, þótt helst vilji hann hafa allar þrjár brautirnar.
„Það er ennþá möguleiki að bjarga neyðarbrautinni,” segir Ómar. Og þannig að Valsmenn hf. geti byggt upp á Hlíðarenda.
Í fréttum Stöðvar 2 rissaði Ómar upp hvernig mætti færa norðaustur-suðvesturbrautina til suðurs að ströndinni. Göngu- og hjólastígur gæti komið við brautarendann, rétt eins og nú er í Nauthólsvík við suðurenda norður-suðurbrautarinnar.

Og það er ástæða fyrir því hversvegna þetta brennur svona heitt á Ómari:
„Þú vissir ekkert í fyrravetur hvenær það kæmi 50 hnúta hliðarvindur hér allt í einu yfir miðjan dag og að þeir yrðu að lenda á þessari braut. Og þeir voru sakaðir um það að vera með leikaraskap til að ljúga því að þeir þyrftu að lenda hérna. Það er hægt að fara inn í gögn Veðurstofunnar og sjá að það voru 50 hnútar á hlið.
Þetta er raunveruleg neyðarbraut. En ekki eins og borgarstjórinn sagði í viðtali að hún héti neyðarbraut af því að hún væri svo hættuleg. Þá heita neyðarblys neyðarblys af því að þau eru svo hættuleg.
Mér finnst vaða uppi í þessu máli rangfærslur og misskilningur, sérstaklega misskilningur. Samanber það að fara að reikna út hliðarvindsstuðul hér fyrir miklu stærri flugvélar heldur en lenda á þessari braut. Það eru litlar flugvélar, sjúkraflugvélar, sem þurfa að nota brautina í neyð,” segir Ómar.
