Íslenski boltinn

Pepsi-spáin 2016: Stjarnan hafnar í 3. sæti

Íþróttadeild 365 skrifar
Stjörnumenn enduðu í fjórða sæti í fyrra.
Stjörnumenn enduðu í fjórða sæti í fyrra. vísir/ernir
Íþróttadeild 365 telur niður í Pepsi-deild karla með árlegri spá sinni. Íslandsmótið hefst 1. maí en þar á FH titil að verja eftir að verða meistari í sjöunda sinn í sögu félagsins.

Íþróttadeild 365 spáir Stjörnunni þriðja sæti deildarinnar en það er sæti ofar en liðið hafnaði á síðustu leiktíð. Þrátt fyrir góðan endi á mótinu í fyrra var síðasta tímabil nokkur vonbrigði fyrir Stjörnuna enda liðið að verja Íslandsmeistaratitilinn. Stjarnan varð meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir ótrúlegan úrslitaleik gegn FH 2014. Stjarnan hefur styrkt hópinn mikið og ætlar sér stóra hluti í sumar.

Rúnar Páll Sigmundsson er á sínu þriðja ári með Stjörnuna en hann byrjaði á því að vinna Íslandsmeistaratitilinn á sínu fyrsta ári við stjórnvölinn. Rúnar átti erfitt uppdráttar í fyrra með Stjörnuliðið en er nú kominn með hóp sem yfirmenn ætlast vafalítið til að geri tilkall til Íslandsmeistaratitilsins og verði ekki í sömu vandræðum og í fyrra.

LÍKLEGT BYRJUNARLIÐ
graf/sæmundur
FYRSTU FIMM

Byrjun Stjörnumanna er beggja blands. Þeir eiga mjög vinnanlega leiki gegn Fylki og Þrótti í fyrstu umferðunum og þó Víkingum sé af mörgum spáð góðu gengi er Stjarnan með sterkara lið og fær þar heimaleik. Fyrstu þrír leikirnir líta því  ansi vel út fyrir Garðbæinga sem er kannski eins gott því eftir það heimsækja þeir KR í vesturbæinn og fá svo Íslandsmeistara FH í heimsókn

02. maí: Stjarnan - Fylkir, Samsung-völlurinn

08. maí: Víkingur  - Stjarnan, Víkingsvöllur

12. maí: Stjarnan – Þróttur, Samsung-völlurinn

17. maí: KR – Stjarnan, Alvogen-völlurinn

23. maí: Stjarnan  - FH, Samsung-völlurinn

Daníel Laxdal, Baldur Sigurðsson og Guðjón Baldvinsson.vísir/pjetur
ÞRÍR SEM STJARNAN TREYSTIR Á

Daníel Laxdal: Uppaldi miðvörðurinn var að spila sína fyrstu leiki fyrir félagið þegar Stjarnan var í 2. deildinni. Hann blæðir bláu og átti frábært tímabil 2014 þegar liðið varð Íslandsmeistari. Daníel var aftur á móti ekki svipur hjá sjón í fyrra og þarf að finna aftur formið sem hann var í fyrir tveimur árum til að hjálpa sínum mönnum að klífa tindinn á ný.

Baldur Sigurðsson: Þvílíkur hvalreki sem það ætti að vera fyrir Stjörnuna að fá Baldur í sínar raðir en hann er að koma heim úr atvinnumennsku. Baldur var á sínum tíma hjá KR einn albesti leikmaður deildarinnar og mikill leiðtogi innan sem utan vallar. Algjörlega frábær miðjumaður sem gæti spilað stóra rullu í því að skila Stjörnunni Íslandsmeistaratitilinum.

Guðjón Baldvinsson: Endurkoma týnda sonarins á miðju síðasta sumri var fín en ekkert mikið meira en það. Guðjón skoraði fimm mörk í ellefu leikjum en hann spilaði áður fyrir KR í Pepsi-deildinni og stóð sig það vel að hann komst í atvinnumennsku. Guðjón er frábær framherji sem á að skila fullt af mörkum og mikilli vinnu fyrir liðið. Hann er líka leiðtogi og uppalinn Stjörnumaður með mikið Stjörnuhjarta. Hann vill ná árangri fyrir sitt lið.

Pablo Punyed var einn af þremur lykilmönnum Stjörnunnar sem fór í byrjun vetrar.vísir/ernir
MARKAÐURINN

Komnir:


Baldur Sigurðsson frá SönderjyskE

Grétar Sigfinnur Sigurðarson frá KR

Duwayne Oriel Kerr frá Sarpsborg

Eyjólfur Héðinsson frá Midtjylland

Guðjón Orri Sigurjónsson frá ÍBV

Hilmar Árni Halldórsson frá Leikni R.

Ævar Ingi Jóhannesson frá KA

Farnir:

Garðar Jóhannsson í Fylki

Gunnar Nielsen í FH

Michael Præst í KR

Pablo Punyed í ÍBV

Arnar Darri Pétursson í Þrótt

Atli Freyr Ottesen í Leikni R. á láni

Kári Pétursson í Leikni R. á láni

Þórhallur Kári Knútsson í Víking Ó. á láni

Veturinn byrjaði ekki vel hjá Stjörnumönnum sem misstu þrjá lykilmenn frá sér; Pablo Punyed, Michael Præst og Gunnar Nielsen. KR og FH buðu betur í prestinn og Gunnar en svo stálu Eyjamenn af þeim einum besta leikmanni Stjörnunnar undanfarin ár. Eftir þetta spýttur Garðbæingar hressilega í lófana.

Stjarnan er búin að safna að sér hverjum gæðaleikmanninum á fætur öðrum. Baldur Sigurðsson og Grétar Sigfinnur Sigurðarson koma með gæði og mikla reynslu inn í liðið og ekki síst búningsklefann. Í markið fékk liðið svo Jamaíkamanninn Duwayne Kerr frá Sarpsborg en það er svakalegur markvörður sem fór með smáliði Sarpsborg í bikarúrslitin í Noregi í fyrra.

Eyjólfur Héðinsson kom heim úr atvinnumennsku og valdi Stjörnuna. Hann hefur verið mikið meiddur undanfarin ár en haldist hann heill getur hann orðið einn besti maður deildarinnar og á í raun að vera það. Þar er háklassa leikmaður á ferð.

Stjarnan bætti svo við sig tveimur mjög spennandi strákum; Hilmari Árna Halldórsson frá Leikni og Ævari Inga Jóhannessyni frá KA sem mörg lið vildu fá. Hilmar var langlangbesti leikmaður Leiknis í fyrra en liðið skoraði varla mark sem hann kom ekki að. Hann hefur smollið eins og flís við rass í þetta Stjörnulið og spilað frábærlega í vetur.

Ævar Ingi er eldfljótur og áræðinn kantmaður með góðar fyrirgjafir og markanef en hann er fastamaður í byrjunarliði U21 árs landsliðs Íslands.

Þó Stjarnan hafi misst sterka spilara er liðið búið að bæta svo mikið við sig að hópurinn er ógnarsterkur.

vísir/pjetur
HVAÐ SEGIR HJÖRVAR HAFLIÐASON?

Hjá Stjörnunni er mikil samkeppni um allar stöður. Ætlar Rúnar að spila Grétari Sigfinni í miðverði á kostnað Brynjars Gauta eða Daníels til dæmis? Á miðjunni má svo gera ráð fyrir Eyjólfi Héðinssyni sem hefur verið meiddur undanfarin þrjú ár. Verði hann heill munar ekkert eðlilega mikið um það.

Rúnar getur ekki spilað Jeppe Hansen og Guðjóni Baldvinssyni saman. Á hvorn ætlar hann að veðja? Það er ekki hægt að rótera þeim endalaust í sumar til að halda þeim ánægðum. Það verður ekki hægt að halda öllum ánægðum. Það verða einhverjir að verða fúlir.

Rúnar má ekki spila þann leik að halda öllum ánægðum. Það gæti vel komið að því að Stjarnan þurfi að minnka hópinn eitthvað.

Stjarnan bjargaði fjórða sætinu í fyrra sem gaf ekki neitt en kröfurnar verða allt aðrar en fjórða sætið í ár. Garðbæingar vilja titil.

Rúnar Páll Sigmundsson þarf að rífa Stjörnuna aftur í gang.vísir/ernir
Það sem við vitum um Stjörnuna er... að liðið er með ótrúlega breidd af gæðaleikmönnum. Það er ekki mikið af afgangsstærðum sem hreinlega komast fyrir á bekknum þegar allir eru heilir. Geti Rúnar Páll stillt upp öllum sínum mönnum munu 3-4 leikmenn sem gætu gengið inn í öll lið deildarinnar þurft að dúsa á bekknum.

Spurningamerkin eru... hvort Rúnar Páll ráði við að halda öllum ánægðum en það gekk ekkert alltof vel í fyrra þrátt fyrir að hópurinn væri ekki jafnstór. Það verður mikið púsluspil fyrir Rúnar og Brynjar Björn að halda svona mörgum góðum leikmönnum sáttum þegar það er ekki einu sinni Evrópukeppni í boði til að friða menn með. Markvörðurinn er heldur ekki búinn að spila mótsleik með liðinu.

Halldór Orri Björnsson þarf að spila betur en í fyrra.vísir/anton brink
Í BESTA FALLI:

Finnur Rúnar Páll sitt sterkasta lið og allir leikmenn Stjörnunnar róa í sömu átt. Þjálfarinn nær að halda mönnum bæði á tánum og brosandi og hikar ekki við að losa ósáttan leikmann eða leikmenn í glugganum ef þess þarf. Breiddin nýtist liðinu vel og öll þessi gæði í liðinu skila sigrum eins og þau eiga að gera. Nái Stjörnumenn upp sömu stemningu og 2014 er liðið betur í stakk búið núna að verða Íslandsmeistari en fyrir tveimur árum í raun og veru.

Í VERSTA FALLI:

Byrjar liðið mótið ekki nógu vel og pressan fer að hlaðast á Rúnar Pál. Honum gengur ekki að halda stjörnuleikmönnum Stjörnunnar sáttum og finnur ekki sitt besta lið. Liðið hefur glímt við töluvert af meiðslum á undirbúningstímabilinu og það gæti haldið áfram. Veikleikarnir á liðinu eru fáir og má að mörgu leyti segja að liðið sé mest í barátu við sjálft sig um eigin árangur. Stjarnan er samt of gott lið til að fara mikið neðar en fjórða sæti. Svo er bara spurning um hvort það gefi Evrópu fari allt í vaskinn.


Tengdar fréttir

Pepsi-spáin 2016: Fjölnir hafnar í 8. sæti

Íþróttadeild 365 spáir Fjölni áttunda sæti Pepsi-deildarinnar í sumar en Grafarvogsliðið jafnaði sinn besta árangur í fyrra og lenti í sjötta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×