Viðskipti innlent

500 milljóna halli á rekstri Hafnarfjarðar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Heildareignir í lok árs námu samtals 48.480 milljónum króna og hafa þær lækkað um 282 milljónir milli ára.
Heildareignir í lok árs námu samtals 48.480 milljónum króna og hafa þær lækkað um 282 milljónir milli ára. Vísir/Daníel
Rekstrarniðurstaða ársins var neikvæð um 512 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 219 milljónir. Helstu frávik má rekja til hækkunar launa einkum vegna starfsmats og nýrra kjarasamninga um 595 milljónir króna umfram áætlun. Lífeyrisskuldbinding sveitarfélagsins, sem bundin er hækkun vísitölu lífeyrisskuldbindingar fyrir opinbera starfsmenn hækkaði um 1.042 milljónir króna sem er hækkun umfram áætlun um 435 milljónir króna segir í tilkynningu.

Tekjur námu 20.673 milljónum króna sem er 459 milljónum umfram áætlun. Laun, launatengd gjöld og breyting lífeyrisskuldbindingar eru stærstu útgjaldaliðir sveitarfélagsins og námu þeir 11.372 milljónum króna sem er 1.030 milljónum krónum hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Annar kostnaður var 7.441 milljónir sem er 485 milljónir umfram áætlun. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir nam 1.860 milljónum króna. Afskriftir námu 877 milljónum króna og fjármagnsliðir 1.496 milljónum króna sem er 344 milljónum króna undir áætlun. Veltufé frá rekstri nam um 953 milljónum króna sem er 1.288 milljónum króna lægra en áætlun gerði ráð fyrir.

Þrátt fyrir niðurgreiðslu skulda hækkuðu heildarskuldir bæjarins um 417 milljónir króna á árinu vegna hækkunar lífeyrisskuldbindingar. Skuldahlutfallið hélt áfram að lækka og var komið í 194 prósent um áramótin en var hæst 294 prósent árið 2009. Skuldaviðmiðið var komið í 170 prósent í lok árs en það var 274 prósent árið 2009.

Rekstur málaflokka var yfir áætlunum sem má að verulegu leyti rekja til launahækkana ársins. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið um 9.814 milljónum króna, til félagsþjónustu um 2.930 milljónum króna og til æskulýðs- og íþróttamála um 1.730 milljónum króna.

Rekstur ársins 2015 var þungur. Ákveðið var að ráðast í rekstrarúttekt til að uppræta rekstrarvanda. Í kjölfarið var lögð fram umbótaáætlun og fjárhagsáætlun 2016 þar sem gert er ráð fyrir umtalsverðum viðsnúningi og að rekstur samstæðu verði jákvæður sem nemur 361 milljón króna.

Heildareignir í lok árs námu samtals 48.480 milljónum króna og hafa þær lækkað um 282 milljónir milli ára. Heildarskuldir og skuldbindingar námu samtals 40.184 milljónum króna.

Íbúar Hafnarfjarðar voru 28.126 þann 1. desember 2015 samanborið við 27.818 árið áður sem er íbúafjölgun um 308 eða 1,1 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×