Viðskipti innlent

Aflandsfélag Róberts: Skráð á Panama og hélt utan um hluti í Actavis

ingvar haraldsson skrifar
Félag Róberts er sagt hafa verið sett upp samkvæmt ráðgjöf frá Landsbankanum.
Félag Róberts er sagt hafa verið sett upp samkvæmt ráðgjöf frá Landsbankanum.
Félagið Aceway, skráð á Panama og í eigu Róbert Wessman er á lista sem birtist í fréttaskýringaþættinum Uppdrag Granskning sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi og er unnin upp úr Panamskjölunum svokölluðu. DV greindi fyrst frá listanum.

Í skriflegu svari segir Halldór Kristmannsson, talsmaður Alvogen, þar sem Róbert er nú forstjóri, að Aceway hafi verið fjárfestingafélag stofnað á Panama í samstarfi við Landsbankann í Lúxemborg.

Sjá einnig: Eggert, Finnur og Róbert í minnispunktum Jóhannesar Kr.

„Tilgangur félagsins var að halda utan um eign Róberts í lyfjafyrirtækinu Actavis og uppsetning félagsins var samkvæmt ráðgjöf Landsbankans á þeim tíma. Actavis var á þessum tíma skráð í Kauphöll Íslands og eign Róberts í gegnum áðurnefnt félag því ávallt opinber í tilkynningum til Kauphallar.“

Í svarinu segir að til skoðunar hafi var á þeim tíma að skrá Actavis í erlenda kauphöll og því hafi verið talið heppilegast að Aceway væri sett upp með þessum hætti.

Þá er lögð áhersla á að Róbert hafi ávallt gefið upp allar sínar til skattyfirvalda. „Róbert Wessman hefur ávallt tilkynnt um eign sína í Aceway til skattyfirvalda á Íslandi og tekjur félagsins hafa verið skattlagðar sem launatekjur hans en ekki sem fjármagnstekjur hér á landi, jafnvel þó skráning þess væri erlendis,“ segir í svarinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×