Viðskipti innlent

165 milljóna afgangur hjá Garðabæ

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gunnar Einarsson er bæjarstjóri Garðabæjar.
Gunnar Einarsson er bæjarstjóri Garðabæjar.
Rekstrarniðurstaða Garðabæjar árið 2015 var jákvæð um 165 milljónir króna. Gunnar Einarsson bæjarstjóri segir niðurstöðuna sýna að staða bæjarfélagsins sé sterk og vel haldið utan um reksturinn. Miklar framkvæmdir voru á árinu, fyrir alls um 1,6 milljarð króna. Skuldahlutfallið er 101 prósent af tekjum sem er langt undir viðmiði sveitarstjórnarlaga, segir í tilkynningu.

Samkvæmt rekstrarreikningi ársins námu rekstrartekjur A og B hluta 11.701 milljónum króna samanborið við 10.725 milljónir króna á árinu 2014. Hækkun milli ára nemur því 9,1 prósent. Rekstrargjöld A og B hluta, þ.e. laun og launatengd gjöld, annar rekstrarkostnaður og afskriftir námu á árinu 11.155 milljónum króna en voru 9.990 milljónir króna á árinu 2014. Hækkun frá fyrra ári nemur 11,7 prósent.

Umfangsmiklar framkvæmdir voru í bænum á árinu 2015 en alls var framkvæmt fyrir 1,6 milljarð. 662 milljónum var varið til framkvæmda við fasteignir grunnskóla, þar af 478 milljónum til viðbyggingar Hofsstaðaskóla og 122 milljónum í framkvæmdir við uppsteypu nýs grunnskóla, Urriðaholtsskóla. 409 milljónir fóru til gatnagerðar og 125 milljónir í framkvæmdir við íþróttamannvirki en stærsta framkvæmdin í þeim málaflokki var nýr gervigrasvöllur á Álftanesi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×