Bakþankar

Súpan

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Ég var á súpufundi um stjórnarskrármálið sem ég hugsaði með mér að væri viðeigandi. Eftir hrun var kallað á breytingar sem áttu einhverra hluta vegna að felast í stjórnarskránni. Við tók farsi, kosning á milli 522 stjórnlagaþingsfulltrúa var meingölluð og ógilt af Hæstarétti.

Þá var ákveðið að breyta þinginu bara í ráð. Starf þess minnti á eldhús þar sem 25 kokkar elda súpu og allir skutla hráefnum í pottinn. Útkoman var klárlega ofgnótt enda tillagan kúvending stjórnarskrárinnar í 114 greinum. Þjóðaratkvæði um tillögurnar fékk ekki meirihluta þjóðarinnar á kjörstað og vandræðagangur vinstristjórnarinnar á hennar síðustu metrum við að gera eitthvað úr uppskriftinni reyndist svo mikið bíó að það var við hæfi að gerð var um hann bíómynd.

Þegar ég var lítil fékk ég hausverk af hvíta Wrigley’s tyggjóinu sem var vinsælt fríhafnargóss. Ég fæ svipaðan hausverk við tilhugsunina um réttaróvissuna og dómsmálin sem stjórnarskrártilraunaeldhúsið hefði boðið upp á. Samt efast ég ekki um einlægan vilja þeirra og trú sem héldu að alhliða uppskriftin myndi gera allt betra, þó ég sé hrædd um að sú uppskrift hefði reynst vera öfug naglasúpa.

Þannig að þó að ég, eins og eflaust flestir, sé ekkert hoppandi kát með nýjar tillögur að stjórnarskrárbreytingum – enda eru þær unnar í þverpólitískri sátt sem er þess eðlis að enginn er 100% sáttur – þá fer minna fyrir hausverknum. Tillögurnar nú eru einfaldlega betur unnar.

Enda sýnist mér að almennt séu umræður um nýja stjórnarskrá bæði minni og lágstemmdari en á súpuárunum. Kannski tók það bara þennan tíma fyrir fólk að fatta að bankahrunið var ekki stjórnarskránni að kenna. Bara alls ekki neitt.






Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.