Viðskipti innlent

Kvika tapaði tæpum 500 milljónum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Sigurður Atli, forstjóri Kviku, segir rekstrarleg markmið samrunans hafa náðst, strax á fyrsta ári hans.
Sigurður Atli, forstjóri Kviku, segir rekstrarleg markmið samrunans hafa náðst, strax á fyrsta ári hans. Vísir/Anton
Á síðasta ári tapaði fjárfestingabankinn Kvika 483 milljónum króna eftir skatta. Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að afkoman sé lituð af samruna- og einskiptiskostnaði.

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 685 milljónum króna á árinu og arðsemi virks eiginfjár 11 prósent þegar leiðrétt hefur verið fyrir samruna- og einskiptiskostnaði. Síðari helmingur ársins var bankanum hagfelldur en þá nam hagnaður af reglulegri starfsemi 464 milljónum króna og arðsemi eiginfjárþáttar A var 15,1 prósent á tímabilinu.

Hreinar þóknanatekjur námu 2.608 milljónum króna á árinu og hækkuðu um 878 milljónir króna frá fyrra ári eða um 51 prósent. Hreinar vaxtatekjur námu 1.124 milljónum króna samanborið við 1.302 milljónir króna árið 2014. Lækkunin skýrist m.a. af hærra hlutfalli lausafjáreigna og lengri fjármögnun bankans sem endurspeglast í mikilli hækkun lausafjárhlutfalls. Vaxtamunur útlána á síðasta ári var 3,4 prósent.

„Árið 2015 var viðburðaríkt og markað af sameiningu MP banka hf. og Straums fjárfestingabanka hf. undir merkjum Kviku banka hf. Það er krefjandi verkefni að sameina tvö öflug fyrirtæki í eitt og mæddi mikið á starfsfólki Kviku sem stóð sig frábærlega. Rekstrarleg markmið samrunans hafa náðst, strax á fyrsta ári hans. Rekstrarkostnaður er um 14 prósent lægri en hann var sameiginlega fyrir samrunann. Sameiginlegur fjárhagslegur styrkur er umtalsvert meiri eins og há eiginfjár- og lausafjárhlutföll bera vott um. Fjárfestar og innlánseigendur hafa tekið Kviku mjög vel. Innlán jukust á árinu, við hófum víxlaútgáfu og vorum fyrsti bankinn eftir fjármálakreppu til að selja og skrá á markað víkjandi skuldabréf,“  segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, í tilkynningu.

Í árslok 2015 námu heildareignir samstæðu Kviku 61.614 milljónum króna samanborið við 49.344 milljónum króna í lok árs 2014 og nemur hækkunin um 25 prósent.

Handbært fé í árslok nam 19.917 milljónum króna sem er hækkun um 6.947 milljónir króna á árinu og aðrar lausafjáreignir námu 17.812 milljónum króna. Hlutfall lausafjáreigna og handbærs fjár af heildarskuldum bankans í árslok nam 68 prósent.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×